Steingrímur J.: Dældu olíu á verðbólgubálið

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum, vísaði til ummæla Seðlabankans um það umrót sem skapast í þjóðarbúskapnum vegna stóriðjufjárfestinga árið 2005 er hóf umræðu um efnahagsmál á Alþingi í dag. Segir Steingrímur að stjórnvöld hafi dælt olíu á verðbólgubálið og bankarnir hafi ýtt undir það með lánveitingum til íbúðakaupanda.

„Við áttum ekki fyrir fjórðu hverri krónu sem við eyddum eða fjárfestum fyrir," segir Steingrímur.  Sagði hann að Seðlabankinn hafi einn reynt að vinna á móti þenslunni. Vandinn sem nú stöndum frammi fyrir er að mestu leyti heimatilbúinn, segir Steingrímur og bætti við að bruðl og eyðsla hafi orðið að tískuorðum enda enginn maður með mönnum nema hann ferðaðist með einkaþotu. „Hvar voru heiðarlegir kapitalistar og íhaldsmenn?" spurði Steingrímur.  

Segir Steingrímur að skuldir heimilanna hafi vaxið á tímabilinu frá því sjálfstæðismenn tóku við völdum árið 1991 úr 80% í 240%. Hann segir að ríkisstjórnin sem nú er við völd sé ein sú daufgerðasta sem sögur fara af. Reynt sé að bæta úr því nú með blaðagreinum. En nú er þetta allt orðið að ímyndunarvanda og erlendir greingarmenn álitnir misvitrir svo ekki sé talað um Danina blessuðu, segir Steingrímur.

Spyr hann forsætisráðherra um hvort stefnt sé að því að styrkja Seðlabankans og hver sé nákvæmlega staðan um frestun stóriðjuframkvæmda hjá ríkisstjórninni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert