Vatnssölusamningur undirritaður

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Halldór Guðbjarnason frá Brúarfoss ehf. undirrituðu vatnssölusamning í dag. Brúarfoss hyggst setja á fót vatnsverksmiðju á Ísafirði og innan 6-8 mánaða hefst útflutningur á vatni í gámum.

Vatninu verður dælt í þar til gerðar blöðrur og sent til Þýskalands til fyrirtækja sem þurfa ferskt vatn í framleiðslu sína. Einnig er kveðið á um 15.000 fermetra lóð á hafnarsvæðinu á Ísafirði undir átöppunarverksmiðju og hefur Brúarfoss rétt rúm tvö ár til að hefja byggingarframkvæmdir.

Í máli Halldórs Guðbjarnasonar kom fram að í átöppunarverksmiðjunni yrðu til störf fyrir tugi manna og að í henni yrði vatni tappað á neytendaumbúðir. Brúarfoss mun fá allt umframvatn sem fellur til á Ísafirði eftir að þörfum heimila og fyrirtækja hefur verið annað.

Í samningnum er einnig kveðið á um Brúarfoss sé heimilt að leggja aðra vatnslögn frá göngunum yfir á hafnarsvæðið. Kostnaður við vatnslögnina fellur á Brúarfoss. Öll verð í samningnum eru trúnaðarmál. Að undirritun lokinni var að sjálfsögðu skálað í vatni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert