Þungt hljóð í lögreglumönnum

Félagsmenn Lögreglufélags Suðurnesja hafa þungar áhyggjur af yfirvofandi niðurskurði hjá embætti Lögreglu- og Tollstjórans á Suðurnesjum, segir í ályktun sem samþykkt var á fjölmennum fundi hjá félaginu síðdegis í dag. Var þungt hljóð í mönnum á fundinum, segir í fréttatilkynningu.

Ályktunin er svohljóðandi:

,,Félagsmenn Lögreglufélags Suðurnesja hafa þungar áhyggjur af yfirvofandi niðurskurði hjá embætti Lögreglu- og Tollstjórans á Suðurnesjum. Rekstur embættisins er ólíkur rekstri annarra embætta að því leyti að aðeins helmingur rekstrarins er á fjárlögum en aðrar fjárheimildir koma af sértekjum. Þessar sértekjur eru óstöðugar og þegar þær bresta þá eru allar rekstrarforsendur í uppnámi. Ljóst er að kostnaður við rekstur embættisins hefur fylgt verðlagsþróun þó að fjárveitingar til embættisins hafi það ekki. Það eru þessir þættir sem munu stuðla að niðurskurði hjá embættinu. Félagsmenn Lögreglufélags Suðurnesja settu fram ótvíræðan og fullkominn stuðning við Lögreglu- og Tollstjórann á Suðurnesjum og yfirstjórn embættisins. Vonum við að hægt verði að finna farsæla lausn á þessum alvarlega vanda með hag Suðurnesjabúa og flugfarþega í huga sem þegar búa við skerta þjónustu.“

Stjórn Lögreglufélags Suðurnesja kveðst vonast til að sjá sem flesta sem láta þetta mál sig varða á fundi sem haldinn verður að Duushúsum í Reykjanesbæ á morgun þann 13. mars 2008 klukkan 20:00.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert