Brotnar konur berskjaldaðar

Sigrún Sigurðardóttir.
Sigrún Sigurðardóttir.

Stúlkur sem verða fyrir kynferðisofbeldi sem börn glíma við afleiðingar þess alla ævi. Þetta eru niðurstöður meistararitgerðar Sigrúnar Sigurðardóttur hjúkrunarfræðings frá Háskólanum á Akureyri, Tíminn læknar ekki öll sár.

Ritgerðin byggir á djúpviðtölum sem Sigrún tók við sjö konur sem allar höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku.

Allar sömu sögu að segja

„Fimm af þessum sjö konum eru með vefjagigt, þær eru með vöðvabólgu, verki og svefnörðuleika, átröskun, ofnota áfengi og glíma við ýmis líkamleg vandamál,“ segir Sigrún. Skýringa má leita í því að ofbeldið verður til þess að þær eru alltaf með varann á og hætta þess vegna að geta sofið á nóttunni. Þegar fólk hættir að sofa hrannast upp fleiri vandamál. Líkaminn verður stífur og við bætast verkir og kvíði. Þegar konurnar fara til læknis orðnar fullorðnar eru þær búnar að þróa með sér vefjagigt og vöðvabólgu. „Fimm af þessum konum eru öryrkjar,“ segir hún.

Þá segir Sigrún konurnar allar hafa sömu sögu að segja um vandamál tengd móðurlífinu. „Það eru blöðrur á eggjastokkunum, samgróningar, hnútar, miklir blæðingaverkir, fósturmissir og fleira.“ Hún segir ekki ljóst hvers vegna þetta verður en oft komi einkennin í ljós eftir einhvern atburð, sálrænt áfall, kynlíf eða annað.

Brengluð mörk

Helmingur kvennanna sem Sigrún talaði við varð fyrir endurteknu ofbeldi seinna á lífsleiðinni. „Þegar búið er að brjóta niður varnarvegg þeirra og þær fá ekki aðstoð til að byggja hann aftur verða þær berskjadaðar fyrir áframhaldandi ofbeldi.“

Hún segir fólk með reynslu af ofbeldi oft hafa brengluð mörk, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Þetta getur lýst sér í miklum öfgum, annað hvort er fólk alveg inni í sér, fælið og á flótta eða alveg öfugt. Þá segir hún öfgar tengdar mat, kynlífi og áfengi algengar. „Ein stundar kynlíf, mikið af því og með sem flestum á meðan aðrar geta ekki stundað kynlíf. Sumar borða og borða á meðan aðrar þjást af lystarstoli,“ segir Sigrún.

Skortir heildarlausn

Sigrún segir skorta á heildarlausn í heilbrigðiskerfið fyrir konur með þessa reynslu. „Konur leita allar í heilbrigðiskerfið með þessi einkenni en það vantar upplýsingaflæði og fræðslu til að vinna úr því,“ segir hún en bætir við að unnið sé að því á Akureyri að þróa þverfaglegt tenglsanet og frekari úrræði fyrir þessa einstaklinga. „Það skiptir öllu máli að þetta fólk fái aðstoð, auk þess sem það sparar þjóðfélaginu mikla peninga.“
Í hnotskurn
Stígamót bjóða upp á aðstoð við þá sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Systursamtök Stígamóta eru Aflið á Akureyri og Sólstafir á Ísafirði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka