Eldsneytisgjald bætist við

Heimilt er samkvæmt lögum að hækka verð á keyptum flugfargjöldum vegna hækkunar eldsneytisverðs, að sögn Hildigunnar Hafsteinsdóttur, lögfræðings hjá Neytendasamtökunum.

Viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar Terra Nova, sem greitt höfðu að fullu fyrir ferð í sumar, fengu á dögunum aukareikning vegna eldsneytisgjalds. Í tilviki viðskiptavinar sem ætlar til Frakklands nam gjaldið um 850 kr. á fluglegg, samtals 6.800 kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Hafði hann þegar greitt að fullu.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Terra Nova, bendir á að mögulegra aukagreiðslna af þessu tagi sé getið í kaupskilmálum og hafi verið nauðsynlegt að leggja á þetta viðbótargjald vegna mjög mikilla hækkana á flugvélaeldsneyti. Hafi ferðaskrifstofan tekið á sig mikið af þeim aukakostnaði sem skapast hefur vegna neikvæðrar þróunar á gengi og olíuverði. Segir Tómas viðskiptavini hafa sýnt mikinn skilning og hafi ekki borið á kvörtunum vegna þessa.

Hildigunnur tekur fram að um sé að ræða sérstaka hækkunarheimild sem tiltekur sérstaklega breytingar á eldsneytisverði. Heimild er einnig til að hækka verð vegna gengisbreytinga, en þá aðeins á þeim hluta kaupverðs sem ógreiddur er. Þó megi ekki breyta verði vegna gengisbreytinga ef minna en 20 dagar eru í brottför, né heldur ef fullnaðargreiðsla hefur þegar farið fram.

Einnig geta ákvæði í lögum leyft viðskiptavini að rifta kaupum verði verulegar verðbreytingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert