Bæjaryfirvöld í Kópavogi gerðu átak í öryggis- og félagsmálum eldri borgara: Tæplega 900 heimili metin

Hátt í 900 heimili eldri borgara í Kópavogi hafa nú verið yfirfarin með hliðsjón af öryggisþáttum og aðstæður fólks á þeim heimilum metnar með tilliti til mögulegrar þarfar fyrir aðstoð félagsmálayfirvalda. Í þeim hluta verkefnisins var aðgætt hvort fólk væri einmana eða byggi við slæmar aðstæður. Niðurstaðan hvað það varðar var sú að 20 heimili þörfnuðust frekari skoðunar hjá félagsmálayfirvöldum. Verkefnið var unnið á árinu 2007 í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Securitas.

Megintilgangurinn var sá að draga úr slysum aldraðra, en í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að fallslys í svefnherbergjum eða setustofu, flest tengd hálu gólfi, lélegri lýsingu og lausum mottum séu algengasta tegund slysa.

Helstu niðurstöður könnunarinnar voru m.a. þær að aðkoma að húsum var í flestum tilfellum í góðu lagi, neðsta þrep í tröppum innanhúss var í næstum 20% tilvika ekki nógu greinilegt og gat þar af leiðandi skapað hættu á falli. Oft vantaði staman límborða fremst á þrep innandyra í sama tilgangi.

Í ljós kom að einungis 16% eldri borgara í Kópavogi nota öryggishnapp og að brunavörnum var ábótavant. Í 30% tilfella vantaði slökkvitæki eða íbúar kunnu ekki á það. Í 7% tilvika heyrðist ekki í reykskynjurum í öllum herbergjum, enda daprast heyrn oftar en ekki með árunum. Var bætt úr því, eins og segir í tilkynningunni, með því að fjölga skynjurum í viðkomandi íbúðum. Þá þóttu aðstæður í svefnherbergjum langoftast í góðu lagi en gerð var athugasemd við að fleiri mættu nota næturljós.

Framkvæmd verkefnisins var sem fyrr segir í höndum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hjá þeim sem þáðu heimsókn var farið yfir öryggisatriði og íbúum boðnar öryggisvörur frá Securitas á kostnaðarverði. Auk þess var skipt um rafhlöður í reykskynjurum. Íbúarnir fengu einnig afhenta bæklinga um starfsemi Kópavogsbæjar í þágu eldri borgara. Jafnframt var afhentur bæklingur um öryggishnappinn sem Securitas þjónustar. Þeir sem fengu heimsókn voru á aldursbilinu 75 ára til 96 ára gamlir.

„Ég er mjög ánægður með framtakið, mér finnst það alveg frábært,“ segir Stefnir Helgason, 78 ára íbúi við Hlíðarveg í Kópavogi. Stefnir er meðal þeirra eldri borgara sem fengu heimsókn frá matsmanni sem tók út öryggisaðstæður heima við. Stefnir er ekkjumaður og býr í einbýlishúsi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert