Kolkrabbinn nýtir orku sem fór til spillis

Barnabörn sex vélfræðinga vígðu orkuver 6 í Svartsengi. Hér standa …
Barnabörn sex vélfræðinga vígðu orkuver 6 í Svartsengi. Hér standa þau með öfum sínum við gufuhverfilinn sérstaka.

 Ný virkjun var tekin í notkun í Svartsengi í gær, að loknum aðalfundi Hitaveitu Suðurnesja. Afkastageta gufuhverfils Orkuvers 6 er 30 megawött, að hluta til orka úr jarðhitakerfi svæðisins sem ekki hefur nýst hingað til.

Við vinnslu jarðhitakerfisins í Svartsengis hefur myndast öflugur gufupúði ofarlega í jarðlögunum. Þrýstingur í honum er meiri en inntaksþrýstingur gufuhverfla orkuversins og því hefur orðið að fella þrýstinginn með lokum á holunum og hefur hluti orkunnar því ekki nýst.

Skoðaðar hafa verið ýmsar leiðir til að nýta gufuna betur enda hefur Hitaveitan reynt að nýta jarðhitaauðlindina sem best, eins og Júlíus Jónsson, forstjóri HS, sagði við athöfn í gær þegar orkuver 6 var vígt. Fram kom hjá Júlíusi að Geir Þórólfsson, gamalreyndur verkfræðingur hjá fyrirtækinu, hefði komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að skoða orkuverið í heild sinni og tengja nýja vél einnig þeim gufuþrýstingi sem orkuverin fimm sem fyrir eru í Svartsengi nú vinna. Hugmyndin var borin undir Fuji Electric Systems í Japan sem framleitt hafa flestar vélar virkjunarinnar. Fram kom hjá Júlíusi að sérfræðingum Fuji hefði ekki litist á hugmyndina að fjölþrýstivél í upphafi en síðan séð að slík vél gæti einnig hentað öðrum jarðhitakerfum og aukið nýtni og sveigjanleika.

Við upphaf hönnunar fékk vélin vinnuheitið Kolkrabbinn, vegna fjölda gufuinntaka og festist heitið við hana. Kolkrabbinn í orkuveri 6 í Svartsengi er fyrsti gufuhverfillinn af því tagi í heiminum. Hægt er að keyra hann á 16 bara þrýstingi, 6 bara og 0,6 bara þrýstingi.

Framkvæmdir við virkjunina hafa staðið yfir í nærri tvö ár. Framleiðsla í virkjuninni hófst fyrir jól en þar sem gufuöflun var ekki lokið komst hann ekki í full afköst fyrr en í síðasta mánuði. Þá var tengd við hann ný hola sem boruð var í Svartsengi, hola SV-22. Hún var skáboruð í gufupúðann rétt neðan við Grindavíkurveg. Annars er orkuver 6 í afar flóknu samspili við aðra hluta orkuversins í Svartsengi.

Heildarkostnaður við framkvæmdina, ásamt fjármagnskostnaði, verður um 4,4 milljarðar kr.

Sex vélfræðingar Hitaveitu Suðurnesja tóku fyrstu skóflustunguna að orkuveri 6 fyrir tveimur árum. Þeir aðstoðuðu nú barnabörn sín við að klippa á borða til merkis um að orkuverið væri komið í gagnið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert