Nýr komusalur tekinn í notkun í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli

Flugstöðin á Egilsstöðum
Flugstöðin á Egilsstöðum mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir


Í dag var formlega opnaður að viðstöddum gestum nýr komusalur í flugstöðinni á Egilsstöðum. Undirbúningur og forhönnun fór fram árið 2003. Þá var gerð spá um farþegaflutninga til framtíðar og ákvörðun um stærð og gerð stækkunar flugstöðvarinnar m.a. byggð á henni.

Í spánni var gert ráð fyrir að farþegafjöldi yrði samtals 65 þúsund árið 2003. Í lok ársins var reyndin 85 þúsund farþegar. Spáin gerði ráð fyrir hámarki farþegafjölda með 120 þúsund farþegum árið 2007, þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði næðu hámarki og er viðbótin við flugstöðina miðuð við þá tölu. Farþegar árið 2007 urðu hins vegar 157 þúsund talsins.

Útlit er fyrir að farþegar verði um 100 þúsund árlega þegar virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi er að fullu lokið.
 
Nýbyggingin við flugstöðina er 420 m að flatarmáli, þar af eru um 80 fermetrar undir tollskoðunarrými. Farþegarými í heild í flugstöðinni eykst við nýbygginguna úr 800 fermetrum í tólf hundruð. Nú verður unnt að skilja komu- og brottfararfarþega algjörlega að, sem er lykilatriði hvað flugverndarsjónarmið í millilandaflugi varðar.
 
Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði Héraðið betur fallið til flugsamgangna en mörg önnur svæði landfræði- og veðurfarslega og áreiðanleiki millilandaflugs 99%. Í flugi til og frá Póllandi sem var um skeið vegna byggingar Bechtel á álverinu í Reyðarfirði féll ekki úr ein einasta flugferð. Egilsstaðaflugvöllur gegni sífellt stærra hlutverki í flugsamgöngum á Íslandi, ekki síst vegna góðra veðurskilyrða.

Næsti áfangi sem fagnað yrði í flugsamgöngum á Íslandi yrði væntanlega opnun nýrrar samgöngumiðstöðvar í Reykjavík eftir eitt til eitt og hálft ár. Þá lægi fyrir brýn þörf á stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli.
 
Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða, sagðist í ávarpi fagna því mjög að teknar væru í notkun stækkun og endurbætur á flugvellinum á Egilsstöðum. Þetta kæmi til með að gjörbreyta þjónustu við flugfarþega.
 
Ársæll Þorsteinssonar er umdæmisstjóri Flugstoða á Egilsstaðaflugvelli.


mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka