Þotuleigan var 4,2 milljónir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kemur á ráðherrafund NATO í Búkarest.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kemur á ráðherrafund NATO í Búkarest. Reuters

Kostnaður við leigu þotu frá IceJet vegna farar ráðherra á ráðherrafund NATO í Búkarest, var 4,2 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Kostnaður við leigu á Jetstream þotu frá flugfélaginu Erni vegna ferðar ráðherra til Svíþjóðar, var 2680 þúsund krónur.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir, að upphaflega hafi staðið til að úr forsætisráðuneyti færi forsætisráðherra, eiginkona hans, aðstoðarmaður og tveir embættismenn á fund NATO í Búkarest. Frá utanríkisráðuneyti stóð til að færu utanríkisráðherra, aðstoðarmaður og þrír embættismenn. Alls 10 manns. Búið var að bóka flug til Búkarest í gegnum London með gistingu þar.

Dagskráin í Búkarest hófst það snemma þriðjudaginn 2. apríl að ekki var hægt að komast þangað með áætlunarflugi á einum degi. Kostnaður við áætlunarflug, hótel og öryggismál var um 3,7 milljónir króna.

IceJet hafi síðan boðið  leigu á Dornier 328-310ER þotu á einstöku kynningarverði, 4,2 milljónir króna. Með því að nýta þann kost hafi verið hægt að leggja af stað 2. apríl og komast heim þann 4. Þá spöruðust um 5 vinnudagar alls sem reikna megi á u.þ.b. 200 þúsund krónur og dagpeningar upp á um 100 þúsund krónur Þetta fyrirkomulag hafi gert mögulegt að nýta mánudaginn 1. apríl til fundahalda, m.a. funduðu forsætisráðherra og utanríkisráðherra með bankastjórn Seðlabankans síðdegis 1. apríl.

Í vélinni eru 14 sæti og var ákveðið að bjóða fjölmiðlum þau fjögur sæti sem ónýtt voru. Það þáðu þrír fjölmiðlar: Fréttablaðið, Stöð 2 og Morgunblaðið. RÚV sendi fréttamann til fundarins frá London.

Forsætisráðuneytið var leigutaki þotunnar og var sem slíkum óheimilt að framselja sæti í vélinni, þ.a. flugferðin var fjölmiðlum að kostnaðarlausu. Einn fjölmiðill, Morgunblaðið, hefur óskað eftir því að fá að greiða sinn hluta við kostnað vegna flugsins en ráðuneytið segir, að sér sé óheimilt að taka við slíkri greiðslu.

Segir ráðuneytið, að kostnaðarauki miðað við ef farið hefði verið með áætlunarflugi sé 200 þús. krónur. Kostnaður vegna ferðarinnar skiptist jafnt á forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Tilkynning forsætisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert