Lyfjakostnaður jókst um 5%

Sverrir Vilhelmsson

Árið 2007 nam lyfjakostnaður hins opinbera 7.055 milljónum króna og var 5% meiri en á árinu 2006. Helstu ástæður eru meiri notkun lyfja almennt, tilfærsla yfir í notkun dýrari lyfja og áhrif gengis.

Greina má hærri kostnað í öllum lyfjaflokkum, þó mest í flokki tauga- og geðlyfja um 136 milljónir króna.

Mesta aukning í kostnaði milli ára er í flokki geðrofslyfja en þar jókst hann um 64 milljónir eða um 15%. Ástæðan er meiri notkun á nýlegu geðrofslyfi auk þess sem þessi lyf eru í auknum mæli notuð til meðferðar á þunglyndi, þá sem viðbótarmeðferð með öðrum þunglyndislyfjum.

Kostnaður vegna flogaveikilyfja jókst um 55 millj. kr. sem er um 17% aukning. Aukning í kostnaði vegna örvandi lyfja sem efla heilastarfsemi (lyfja við ofvirkni) nam 42 milljónum sem er um 16% aukning milli ára. Ástæðan er meiri notkun á langverkandi lyfjaformum sem eru dýrari en eldri lyfin, samkvæmt vef Tryggingastofnunar.

Kostnaður vegna þunglyndislyfja, sem er dýrasti lyfjaflokkur TR, lækkaði um 62 milljónir króna þrátt fyrir að notkun þeirra hafi aukist um 3%. Ástæða þessa er lækkað verð á mörgum dýrum þunglyndislyfjum. Einnig má geta þess að kostnaður vegna lyfja til temprunar á blóðfitu (blóðfitulækkandi lyfja) lækkaði um 41 millj. kr þrátt fyrir að notkun hafi aukist um 17%. Ástæða þessa er einnig mikil verðlækkun m.a. með tilkomu samheitalyfja á markaðinn.

Upplýsingar um almenna lyfjanotkun og lyfjakostnað eru fengnar úr tölfræðigagnagrunni Tryggingastofnunar og byggja á afgreiddum lyfseðlum sem apótek senda stofnuninni með rafrænum hætti. Í tölfræðigrunninum eru eingöngu upplýsingar um notkun lyfseðilsskyldra lyfja afgreiddra úr apótekum, en hvorki upplýsingar um lausasölulyf sem seld eru án lyfseðils né lyf sem notuð eru á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert