This is my Life skorar hátt á lista Eurovision-aðdáendaklúbba

Eurobandið.
Eurobandið. mbl.is/Eggert

„Ég kvarta ekki undan svona tölum. Auðvitað er alltaf gaman að fá góða spá og þetta er byr undir báða vængi. Samt er eins gott að vera með báðar lappir niðri á plánetunni Jörð,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sem er í forsvari fyrir Eurovision-hóp Íslands sem heldur til Serbíu í maí.

This is my Life, framlag Eurobandsins í Eurovision, situr í sjöunda sæti á lista hinna svokölluðu OGAE-klúbba, sem innihalda grjótharða aðdáendur keppninnar. „Þetta fólk sem kýs er fyrst og fremst aðdáendur keppninnar frá ýmsum löndum,“ segir Páll Óskar. „Þeir eru búnir að heyra öll lögin og liggja yfir keppninni.“

Svíþjóð leiðir listann

Framlag Svíþjóðar, sem hin þokkafulla Charlotte Perelli flytur, situr í efsta sæti listans með 191 stig. Serbía er í öðru sæti með 122 stig og Sviss situr í því þriðja með 121. Í fjórða sæti er Armenía með 100 stig rétt fyrir ofan Úkraínu sem er í fimmta sæti með 92 stig. Noregur er svo í sjötta sæti með 78 stig, aðeins hársbreidd frá íslenska framlaginu sem er með 76 stig.

Páll Óskar lítur aðeins á listann sem fagurfræðilega vísbendingu. „Þetta er óskhyggja aðdáendanna,“ segir hann. „Þetta eru þeirra uppáhaldslög sem vaxa með þeim. Aðdáendurnir gera þennan lista með þeim fyrirvara. Svo þegar við rönkum við okkur í sjálfri kosningunni, þá vöknum við upp við sama drauminn að frændur eru frændum bestir og klappa hver öðrum á bakið. Það er allt í lagi.“

Páll Óskar segir keppnina hafa verið eins í hálfa öld, en ítrekar að hún endi alltaf eins; það eru alltaf lög sem skara fram úr óháð þjóðerni. „Það eru alltaf einhverjir töfrar sem sigurflytjandinn nær að klófesta eða að lagið sé svona rosalega grípandi og flott. Þess vegna eiga allir séns. Allir eiga sama möguleika á því að vinna keppnina, sama frá hvaða landi þeir koma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka