Ekki samkomulag um frípóstsreglur

Póst- og fjarskiptastofnun hefur undanfarna mánuði staðið fyrir vinnu starfshóps með það að markmiði að ná samkomulagi meðal hagsmunaðila þar sem neytendum yrði tryggður réttur til að afþakka fjölpóst og/eða fríblöð. Ekkert samkomulag hefur náðst og hefur starfinu verið hætt.

Fram kemur á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar, að í drögum að samkomulagi hafi verið gert ráð fyrir, að óumbeðnar sendingar yrðu settar í tvo flokka, annars vegar fjölpóst og hins vegar fríblöð. Neytendur gætu síðan hafnað öðrum hvorum flokknum eða báðum.

Stofnunin segir, að þótt allir aðilar hafi lýst yfir áhuga á að finna lausn á þessu mikilvæga neytendamáli hafi ekki tekist að ná samkomulagi um samræmt verklag um meðferð fjölpósts, sem dreift sé í fríblöðum. Póst- og fjarskiptastofnun hafi því tilkynnt þeim hagsmunaðilum, sem komu að þessari vinnu, að störfum starfshópsins sé hér með lokið enda ekki lengur grundvöllur fyrir samkomulagsleið.

Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldi af þessari niðurstöðu skrifa bréf til samgönguráðherra þar sem farið verður yfir vinnu starfshópsins og þær leiðir sem til greina gætu komið hér á landi til að tryggja betur en nú er gert rétt neytenda til að afþakka fjölpóst og fríblöð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert