Guðni: Það er runnin upp ögurstund

Á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag.
Á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Frikki

Það er runnin upp ögurstund þegar stýrivextir eru hér þeir hæstu í veröldinni, verðbólgan mælist 12% í apríl, gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 30%, við blasa spár um hrun á eignum almennings, greiðslubyrði heimilanna margfaldast, gjaldþrot eru hafin í atvinnulífinu með tilheyrandi atvinnuleysi og hörmungum sem bitna á launafólki.

Þetta sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag. „Ríkisstjórnin er ekki starfi sínu vaxin og ekki á vetur setjandi. Hún verður að taka sig á eða fara frá," sagði hann.

Guðni sagði að framsóknarmenn hefðu ekki við núverandi aðstæður mestar áhyggjur af bankakerfinu sem væri sterkt þrátt fyrir ákveðið offar á síðustu árum.

„Við höfum miklu meiri áhyggjur af stöðu heimilanna, stöðu fólksins í landinu, stöðu unga fólksins, barnafólksins, og því að launafólkið verði látið bera þungann og áfallið af kreppunni.

Einu ber þó að fagna hér í dag alveg sérstaklega. Guði sé lof fyrir að okkur framsóknarmönnum hefur tekist að verja Íbúðalánasjóð fólksins. Íbúðalánasjóður er ljós í myrkrinu. Hann hefur hafið vaxtalækkun á ný. Hann á svigrúm og möguleika að standa vörð um hag þúsunda heimila. Hönd Íbúðalánasjóðs er við þessar aðstæður mjúk sem móðurhönd, meðan bankakerfið undir stjórn harðrar arðsemiskröfu starfar öðruvísi og færi öðruvísi að," sagði Guðni.

Hann gagnrýndi einnig núverandi stjórnvöld fyrir að hafa svikið samkomulag sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði við aldraða og öryrkja. „Hvers vegna fremur ríkisstjórnin svona drottinsvik við þennan hóp að hafa af þessu fólki, sem býr við lægstu bætur, 3,6 milljarða á ári? Það vantar tíu þúsund krónur í launaumslagið hjá öllu þessu fólki sem er á lágmarkstekjum við hver mánaðamót. Við framsóknarmenn fordæmum þennan gjörning og þessi svik. Mikil er skömm ríkisstjórnarinnar. Þetta er lágkúra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert