Spurt um ráðningu Jakobs Frímanns

Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks í borgarstjórn hafa farið fram á svör við spurningum í níu liðum varðandi ráðningu Jakobs Frímanns Magnússonar sem framkvæmdastjóra miðborgarmála. fréttatilkynning frá Degi B. Eggertssyni vegna málsins fylgir hér á eftir:  

Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks

Vegna umræðu undanfarinna daga um ráðningu Jakobs Frímanns Magnússonar sem framkvæmdastjóra miðborgarmála, sem er ný staða:

Áður hafði verið kynnt að til stæði að finna verkefnisstjóra fyrir miðborgina, og að sú staða yrði ekki auglýst að minnsta kosti að sinni þar sem hugsanlega yrði verkefnisstjórinn fluttur úr öðrum verkefnum innan borgarkerfisins þar sem staðgóð þekking á stjórnkerfinu væri lykilatriði til að ná árangri í miðborginni.

Af þessu tilefni óska fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks svara við eftirfarandi spurningum.

1. Borgarstjóri upplýsti um það í Kastljósviðtali að hann hafi væntingar til þess að umræddur starfsmaður muni starfa út kjörtímabilið. Hefur það breyst?

2. Reglur borgarinnar um ráðningar gera ráð fyrir því að allar stöður til eins árs eða lengur skuli auglýsa. Hvaða rök eru til þess að auglýsa ekki stöðuna?

3. Hvaða rök eru fyrir því að starfsmaðurinn sé umtalsvert hærri laun en allir aðrir verkefnisstjórar, velflestir forstöðumenn, s.s. framkvæmdastjórar annarra hverfa, skólastjórar og deildarstjórar hjá Reykjavíkurborg þótt þeir séu margir hverjir með tugi og hundruð undirmanna en framkvæmdastjóri miðborgar sé einyrki? Eru laun hans miðuð við laun aðstoðarmanns borgarstjóra?

4. Hvernig samræmist það sveitarstjórnarlögum eða samþykktum Reykjavíkurborgar um hæfi og kjörgengi að umræddur starfsmaður sé jafnframt því að vera framkvæmdastjóri miðborgarmála formaður hverfisráðs miðborgar og varaformaður menningar- og ferðamálaráðs?

5. Formaður hverfisráðs (Jakob Frímann Magnússon) hefur m.a. það hlutverk að vera tengiliður íbúa, félagasamtaka og stofnana við borgaryfirvöld og fylgjast með og hafa eftirlit fyrir hönd borgarstjórnar og þessara aðila um að borgin sé að sinna hlutverki sínu í hverfinu, s.s. framkvæmdastjóra miðborgar. Verður ekki að teljast óheppilegt að einstaklingar hafi eftirlit með sjálfum sér?

6. Ofangreind ráðning hefur ekki komið til afgreiðslu eða umfjöllunar í borgarráði þrátt fyrir að hermt er að starfsmaðurinn heyri beint undir borgarstjóra, skv. skipuriti. Hverju sætir það og eru einhver fordæmi fyrir því að starfsmaður annar en aðstoðarmaður borgarstjóra heyri beint borgarstjóra en sé ráðinn án þess að slíkt sé samþykkt og kynnt í borgarráði?

7. Borgarstjóri hefur komist svo að orði að starfsmaðurinn verði honum til aðstoðar við fleiri mál en þeim sem snúa að miðborginni og þurfi því að koma úr hópi pólitískra stuðningsmanna sinna? Hverjar eru heimildir borgarstjóra til að ráða sér fleiri en einn aðstoðarmann?

8. Starfsmaðurinn hefur haft eftir borgarstjóra að verksvið hans sé að vera "framhandleggur borgarstjóra" í miðborgarmálum. Jafnframt að verksvið hans verði yfirumsjón með skipulagi og framkvæmdum í miðborginni.

Hvernig mun hið víðtæka valdssvið framkvæmdastjóra vera skilgreint?

Hvaðan munu verkefnin flytjast?

Hver verður skörun við verkefnis skipulags- og eignasjóðs/framkvæmdasviðs sem og verksvið viðkomandi ráða?

Liggur erindisbréf starfsmannsins eða starfslýsing fyrir?

9. Var í aðdraganda ráðningarinnar litið til umsókna þeirra sem sóttu um stöðu verkefnisstjóra á skrifstofu borgarstjóra í janúar síðastliðnum? Ef ekki, hvers vegna?

Með kveðju/Best regards

Dagur B. Eggertsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert