DV stendur við frásögn sína

DV stendur við frásögn sína af meintri fyrirætlan lögregluyfirvalda að handtaka Jón Ásgeir Jóhannesson við komuna til landsins 29. ágúst 2002 í framhaldi af húsleit á skrifstofu Baugs daginn áður, og segir frásögn blaðamanns hafa hvílt á viðtölum við háttsett vitni innan lögreglu- og tollgæslu sem halda fast við frásögn sína og fullyrða að hún sé í samræmi við staðreyndir.  DV hefur sent frá sér yfirlýsingu til mótvægis við yfirlýsingar ríkislögreglustjóra og fréttastjóra Sjónvarps í gær.

Yfirlýsing DV til mótvægis við yfirlýsingar ríkislögreglustjóra og fréttastjóra Sjónvarps í gær er eftirfarandi:

„Elín Hirst, fréttastjóri Sjónvarps, og Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, gáfu út samræmdar yfirlýsingar til fjölmiðla föstudaginn 9. maí sl. þar sem mótmælt var frásögn í fréttaskýringu Jóhanns Haukssonar, blaðamanns, sem birtist í DV fimmtudaginn 1. maí undir fyrirsögninni "Ögurstund í Hæstarétti".   Athygli vekur hve langur tími leið frá frásögninni í DV og þar til yfirlýsingarnar bárust fjölmiðlum.  Einnig vekur athygli hið augljósa samráð þessara tveggja ríkisstofnana um mótmælin.  Er hugsanlegt að tilraun hafi verið gerð til að fá fleiri aðila að yfirlýsingunni og að það skýri dráttinn? 

Mótmæli Elínar og Haraldar lutu að frásögn Jóhanns af meintri fyrirætlan lögregluyfirvalda að handtaka Jón Ásgeir Jóhannesson við komuna til landsins 29. ágúst 2002 í framhaldi af húsleit á skrifstofu Baugs daginn áður.  Sjónvarpi hafi verið gert viðvart og myndatökumenn hafi verið í  flugstöðinni til að festa atburðinn á filmu.  Frásögn Jóhanns hvíldi á viðtölum við háttsett vitni innan lögreglu- og tollgæslu.

Í framhaldi af yfirlýsingum þeirra Elínar og Haraldar hefur verið haft samband við þessa heimildarmenn á nýjan leik.  Þeir furða sig á yfirlýsingunum en segjast stöðu sinnar vegna ekki geta stigið fram að svo stöddu af ótta við starfsöryggi sitt.  Þessir aðilar halda fast við frásögn sína og fullyrða að hún sé í samræmi við staðreyndir.  Myndatökumenn frá sjónvarpi hafi verið á staðnum þessara erinda til að mynda hina fyrirhuguðu handtöku.  Vegna stöðu þessara aðila og trúverðugleika getur DV hvorki dregið frásögnina til baka né beðist afsökunar á henni.  Hér stendur einfaldlega fullyrðing þessara heimildarmanna gegn fullyrðingu þeirra Elínar og Haraldar og á meðan svo er stendur frásögnin enda er í henni vísað til heimilda sem blaðamaður metur trúverðugar.  Hvað varðar framburð Elínar Hirst og vísan til vaktaskýrslu á fréttastofu þá hefur DV engar forsendur til að meta þau meintu gögn óséð."       

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert