Aldrei séð annað eins

Kristján Steinarsson, ökumaður 40 tonna flutningabíls sem fór á hliðina þegar vegurinn við Biskupsháls á Möðrudalsöræfum gaf sig í ofsaflóði seint í gærkvöldi segist aldrei hafa orðið vitni að öðru eins. „Ég hef ekki séð svona rosalegt vatnsmagn,“ segir  Kristján.

Hann segist hafa stöðvað bílinn þegar hann kom að hálfsundurgröfnum veginum og farið út úr honum þegar ljóst var að hann kæmist hvorki lönd né strönd. Vatnsflaumurinn jókst stöðugt og um hálftíma síðar var bíllinn kominn á hliðina, en þá var lögreglan komin á staðinn.

Kristján segir bílinn vera mikinn skemmdan en vonar að hann sé ekki ónýtur. Þá var bíllinn með fullfermi af fiski sem skemmdist einnig. Ljóst er að um milljónatjón er að ræða.

Vegagerðin hóf bráðabirgðaviðgerð í morgun og var umferð hleypt aftur á á ellefta tímanum. Vonir standa til að að vegurinn verði fljótlega kominn í samt horf.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert