Óvíst hvernig nýtt teymi bætir stöðu barna með skarð í gómi eða vör

Landspítalinn mun setja á laggirnar sérstakt teymi sem ætlað er að annast meðferð barna með skarð í gómi og vör.

Páll Björnsson segir foreldra barna með skarð í vör og/eða gómi enn í mjög slæmri stöðu og með öllu óljóst hvort útspil Landspítala muni breyta þar nokkru um. Páll er faðir tveggja drengja með skarð í gómi og vör og þarf fjölskyldan að standa straum af gífurlegum kostnaði vegna skurðaðgerða og tannréttinga á drengjunum.

Þar munar mest um kostnaðinn vegna tannréttinganna: „Enn virðist engin lausn í sjónmáli á viðræðum Tryggingastofnunar og tannréttingamanna. Tryggingastofnun segist greiða 95% af kostnaði við tannréttingarnar, en miðar þá við upphæðir í viðmiðunartaxta stofnunarinnar. Verðskrá tannréttingamanna er svo allt önnur og nemur endurgreiðsla TR þá oft ekki meira en 45% af kostnaðinum,“ segir Páll.

Páll segir myndum teymisins skref í rétta átt en umfjöllun um teymið hafa verið óljósa og erfitt að gera sér grein fyrir hver áhrifin af starfi þess verða. „Til dæmis er óljóst hvaða áhrif þetta hefur á þá sem þegar hafa hafið meðferð. Um er að ræða aðgerðir sem eru gífurlega erfiðar fyrir börnin og það að skipta um meðferðaraðila getur verið stórmál.“

Ólafur Baldursson er aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga við Landspítalann. Hann segir ávinninginn af stofnun teymisins einkum felast í að geta veitt heildstæða meðferð og ráðgjöf innan veggja spítalans og að þetta verði framfaraskref í meðferð þessa erfiða fæðingargalla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert