Álftarungar á Bakkatjörn

Álftarungar eru komnir á legg á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi en fyrir helgi var talið að engir ungar kæmust á legg þetta árið þar vegna ágangs sílamáva. Ljósmyndari Morgunblaðsins náði mynd af þessum tveimur ungum er þeir syntu með móður sinni á Bakkatjörn í morgun.

Í síðustu viku var greint frá því í frétt mbl.is að mávar hafi komist í egg álftapars sem lengi hefur orpið í hólma í tjörninni. 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sagði á föstudag að ferðir manna á báti á tjörninni fyrr í vikunni hafi styggt álftirnar frá hreiðrinu og sættu mávarnir færis og rændu eggjunum. „Álftir láta ekki veifiskata eins og sílamáva hrekja sig frá varpi,“ segir Kristinn. Í vettvangsrannsókn Kristins út í hólmann í tjörninni á fimmtudagskvöld kom í ljós að enn voru tvö egg í hreiðrinu sem virðast nú hafa klakist út.

Kristinn lýsti för sinni í hólmann á póstlista fuglaáhugamanna og sagði að álftir væru oft grimmar við hreiður og rækju óboðna gesti miskunnarlaust í burtu, þar á meðal refi, kindur, börn og gamalmenni.

Álftaungarnir á Bakkatjörn í morgun
Álftaungarnir á Bakkatjörn í morgun mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert