Ágreiningur um hvalveiðar lítið mál

Hrefnubáturinn Njörður heldur til veiða í vikunni.
Hrefnubáturinn Njörður heldur til veiða í vikunni. mbl.is/G. Rúnar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að það væri vissulega óvenjulegt, að ráðherrar stjórnarflokks geri opinberan ágreining við mál sem einn ráðherra hafi forræði í líkt og gerst hefur varðandi hrefnuveiðar nú.

Geir sagði hins vegar að um væri að ræða lítið mál og ekki af því tagi, sem á Norðurlöndum yrði talið ráða úrslitum um hvort ríkisstjórn situr eða ekki.

„Þetta snýst um 40 hrefnur og ágreiningurinn snýst ekki um náttúruverndarsjónarmið. Það er enginn að tala um að ekki felist sjálfbærni í þessum veiðum og það dettur engum manni í hug að það sé óábyrgt að taka þessa hvali með þeim hætti sem hér er gert. Málið snýst eingöngu um hvaða mat fólk leggi á þetta mál gagnvart öðrum hagsmunum," sagði Geir.  

Hrefnuveiðar Íslendinga voru ræddar utan dagskrár að ósk Guðna Ágústssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, sem gagnrýndi harðlega að ríkisstjórnin talaði ekki einum rómi í málinu. Spurði Guðni hvort Geir muni treysta Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, til að flytja málstað Íslands í hrefnumálinu á erlendri grund.

Þá sagði Guðni, að sjávarútvegsráðherra hefði verið lítillækkaður og aðgerðir utanríkisráðherra væru fáheyrðar. Sagði Guðni að með þessu hefðu kastljósi verið beint að Íslandi og ríkisstjórn ætti ekki að skemmta skrattanum með svona tvískinningi.

Geir sagðist treysta utanríkisráðherra fullkomlega til að fjalla um hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi enda skildi hún fullkomlega um hvað málið snérist.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði m.a. að afstaða þingmanna til hvalveiða nú væri án efa önnur, en þingmanna árið 1999.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert