Símasambandslaust í nokkra daga í Sandgerði

Um síðustu helgi urðu Stafnesbúar símasambandslausir er tveir strengir slitnuðu við framkvæmdir við Reynisheimilið. Strengirnir slitnuðu um hádegisbilið á laugardeginum og höfðu íbúar strax samband við Símann í gegnum farsímaþjónustu. Viðgerð fór fram á mánudeginum 26. maí, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum Lífið í Sandgerði.

„Veðurstofan er með jarðskjálftamæli í Nýlendu sem varð óvirkur vegna þessa og eldri kona sem notar öryggishnapp bjó skiljanlega við mikið óöryggi þessa helgi.

Þeir sem reynslu hafa af svona málum segja að ef rafmagnsleysi komi upp þá sé vinna við lagfæringu yfirleitt hafin innan hálftíma sama hvaða dagur er, en ef upp komi bilun hjá Símanum þá geti fólk þurft að bíða í nokkra daga eftir viðgerð.

Starfsmaður Mílu sem vann að viðgerð sagði að viðbrögðin færu alveg eftir því hversu margir væru tengdir við línuna," að því er segir á vefnum Lífið í Sandgerði.

Eva Magnúsdóttir, sölu- og markaðstjóri Mílu dótturfyrirtækis Símans hafði þetta um málið að segja: „Varðandi slit á strengjum í Sandgerði þá var um 2 strengi að ræða 51 og 10 línu. Það er ekki alltaf sem kvartanir frá notendum berast strax. Svo virðist sem fyrstu kvartanir hafi borist til Mílu um kl. 18 s.l. laugardag. Bakvakt fór á staðinn á sunnudag þar sem Síminn tilkynnti um bilun á línu Veðurstofunnar kl. 11.

Um hádegi fóru viðgerðarmenn frá Reykjavík á vettvang, en urðu frá að hverfa þar sem kalla þurfti til verktaka til að grafa frá strengjunum þannig að viðgerð gæti gæti hafist. Á mánudeginum var síðan gert við þessar bilanir og var þeim lokið um kl. 15 sama dag. Þessi viðbrögð eru samkvæmt þjónustuviðmiðum," segir í svari sem birt er á vefnum Lífið í Sandgerði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert