Hæstiréttur að kalla eftir nýju dómsstigi

Sigurður Tómas Magnússon ræðir við fjölmiðla eftir dóminn í gær.
Sigurður Tómas Magnússon ræðir við fjölmiðla eftir dóminn í gær. mbl.is/Golli

Sigurður Tómas Magnússon saksóknari í Baugsmálinu segir eitt og annað í dómi gærdagsins koma á óvart, forsendum sýknu í vissum liðum sé breytt, án þess að um það hafi verið mikið fjallað í málflutningnum.

„Hæstiréttur tekur einnig fram að hann geti ekki endurskoðað sönnunarmat gagnvart Jóni Ásgeiri. Ákæruvaldið hafði treyst því að Hæstiréttur gæti endurskoðað hin skjallegu gögn, tölvupósta og fleira, en sú leið er ekki farin. Það kemur mér á óvart, að ekki sé fjallað um það hvort hin skjallegu sönnunargögn dugi til sakfellingar. Það er ýmislegt sem  vantar í rökstuðning dómstóla enn þá.“


Hann segir dóminn merki um ófullkomleika íslenska réttarkerfisins. ,,Ákæruvaldið á aðeins kost á sakfellingu á einu dómsstigi. Engin  endurskoðun virðist vera tæk. Ákærðu geta greinilega áfrýjað sakfellingardómum en ákæruvaldið virðist ekki eiga þess kost að hnekkja
sýknudómum úr héraði.“

Hæstiréttur treysti sér ekki til að ómerkja héraðsdóminn þar sem málatilbúnaður hafi tekið svo langan tíma. Að öðrum kosti hefði Hæstiréttur ómerkt hann. Þetta segir Sigurður vera ákall á millidómsstig í landinu til að endurmeta sönnun.

Það eina sem Sigurður segist ekki skilja í dómnum er það mat að rafræn tilkynning sem Baugur sendi Verðbréfaþingi Íslands hafi ekki verið lögð fram í málinu. Alltaf hafi legið fyrir að tilkynningin var rafræn og ekki til í neinu frumriti. Verðbréfaþingið staðfesti að hún hafi borist frá Baugi, og ákærðu aldrei mótmælt því. „Það næst ekki sakfelling í hluta ákæruliðar vegna þessa.“

Hann segist guðsfeginn að málið fór ekki aftur í hérað. Léttir sé að málinu ljúki, en hann hefur unnið við það í tvö og hálft ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert