Mikið að gerast hjá Heklu en þó ekki gos

Töluvert er eftir af birkitorfum á svæðinu sem bera vitni …
Töluvert er eftir af birkitorfum á svæðinu sem bera vitni um forna birkiskóga. Þessar torfur eru inn á afrétti Flóa- og Skeiðamanna í Þjórsárdal og heita Áslákstungnatorfur. Hreinn Óskarsson

Mikið er að gerast hjá Hekluskógum um þessar mundir. Verið að sá melgresi til að stöðva sandfok, dreifa áburði og planta trjám. Hluti trjánna er gefinn landeigendum á svæðinu, þar á meðal frístundahúsaeigendum.

Þar sem mikið sandfok er er best að hefta það með melgresi en það safnar sandinum í sig. Land sem hefur þannig verið sáð í er svo heppilegt til frekari uppgræðslu. Auk melgresissáningar á um 50 hektara er verið að bera áburð til að hjálpa gróðri á Hekluskógasvæðinu og á eldri sáningarsvæði, alls um 1200 hektara. Hekluskógasvæðið alls nemur 90.000 hekturum. Áætlað var síðan að planta um 400.000 trjám en þar sem sáning misfórst verður um 250.000 plantað og áhersla lögð á sáningu þess í stað.

Hreinn Óskarsson, starfsmaður Hekluskógaverkefnisins, segir að um 80-90 þúsund plöntum verði plantað með vélum og síðan taki verktakahópar að sér að planta hluta. Til að mynda hafi fótboltalið frá Selfossi plantað nýlega 25 þúsund trjáplöntum við Sultartunga. Landeigendur á svæðinu fá 25-35 þúsund plöntur og eru frístundalóðaeigendur þar á meðal. Úthlutun fari fram þessa dagana en fólk getur ennþá sótt um á heimasíðu Hekluskóga. Í lok sumars verður haft samband við eigendur og þeir beðnir um að sýna hvar var gróðursett og árangur síðan metinn.

Á Hekluskógasvæðinu munu einnig fara fram ýmsar rannsóknir í sumar, til dæmis verkefnin Skógvatn og Kolbjörk. Skógvatnsverkefnið gengur út á að skoða áhrif birkiskóga og uppgræðslu á vatn og lífið í vatninu og tilgangur Kolbjarkar er að skoða samband koltvísýringsbindingar, jarðvegs og skóga. Bæði verkefnin fengu nú í vikunni úthlutað styrkjum frá Orkuveitu Reykjavíkur

Hreinn segir fólk á svæðinu vera mjög jákvætt gagnvart verkefninu. ,,Þetta þjappar líka fólki saman, að taka þátt í svona verkefnum.” Hekluskógar stóðu nýverið fyrir námskeiðinu Að breyta sandi í skóg, sem ætlað var áhugasömum um skógrækt á örfoka landi, líkt og mikið er um á svæðinu. Var námskeiðið vel sótt og verður því endurtekið næsta vor.

Markmið Hekluskógaverkefnisins er að verja landið fyrir mögulegum áföllum vegna öskufalls með því að endurheimta náttúrulegan birkiskóg og kjarrlendi á stórum, samfelldum svæðum í nágrenni. Hefur það verið styrkt af ýmsum aðilum, til dæmis Heklu, Landgræðslunni, Landsvirkjun og Skógrækt Ríkisins.

Fyrir nánari upplýsingar má benda á heimasíðu Hekluskóga: www.hekluskogar.is 

Yfirlit yfir Hekluskógasvæðið
Yfirlit yfir Hekluskógasvæðið SPOT5 gervitunglamynd
3. flokkur í knattspyrnudeild Selfoss gróðursetur birki í Sultartanga.
3. flokkur í knattspyrnudeild Selfoss gróðursetur birki í Sultartanga. Hreinn Óskarsson
Þriggja ára birkiplanta í Þjórsárdal. Sumar plöntur eru þegar farnar …
Þriggja ára birkiplanta í Þjórsárdal. Sumar plöntur eru þegar farnar að mynda fræ a þessum aldri. Hreinn Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert