Gróska í Þingeyjarsýslum

Guðríður Baldvinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sælusápur.
Guðríður Baldvinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sælusápur. mbl.is/Kristbjörg Sigurðardóttir

Hópur fólks í Þingeyjarsýslum hefur á undanförnum mánuðum tekið þátt í verkefninu Vaxtarsprotum. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í heimabyggð. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni m.a. á sviði matvælaiðnaðar og ferðaþjónustu.

Vaxtarsprotar er stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum landsins. Verkefninu, sem er á vegum Impru og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, var ýtt úr vör á Suðurlandi og við Húnaflóa á árinu 2007, en hefur á undanförnum mánuðum komið til framkvæmdar í Þingeyjarsýslum.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Búgarð, ráðgjafaþjónustu á Norðausturlandi.

Þátttakendum í verkefninu hefur staðið til boða margvíslegur stuðningur. Boðið hefur verið upp á námskeið, einstaklingsbundna leiðsögn, auk þess sem ýmsir styrkjamöguleikar hafa verið kynntir. Áhugi fyrir verkefninu var strax í upphafi mikill, en um 30 einstaklingar hafa nú lokið námskeiðunum og mun fleiri hafa nýtt sér hluta þeirra, auk leiðsagnar starfsmanna verkefnisins.

Þann 13. júní var haldin vegleg uppskeruhátíð á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins, í Skúlagarði í Kelduhverfi, þar sem fram fór formleg útskrift vaxtarsprota í Þingeyjarsýslum . Markmið hátíðarinnar var að vekja athygli á verkefnum þeirra Þingeyinga sem tekið hafa þátt í verkefninu og einnig að skapa umgjörð um lok verkefnisins á þessu misseri.

Þar afhenti Níels Árni Lund, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Guðríði Baldvinsdóttur í Lóni í Kelduhverfi sérstaka viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sælusápur-hrein upplifun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert