Verðhækkanir koma hart niður á bændum

Hækkanir á olíu og öðrum aðföngum eins og áburði, kjarnfóðri og baggaplasti eru farnar að valda mörgum bændum erfiðleikum. Hafa Bændasamtökin ákveðið að veita bændum fjármálaráðgjöf og aðstoð við að endurskipuleggja og skuldbreyta lánum. Vitað er um bændur sem eru við það að komast í greiðsluþrot og fáar greinar landbúnaðarins þar undanteknar.

Dæmi eru um milljóna króna kostnaðarhækkun á sumum búum síðastliðið ár. Fyrir greinina í heild nemur hækkunin milljörðum króna. Þannig hefur eingöngu áburðarkostnaður landbúnaðarins hækkað um nærri hálfan milljarð króna að undanförnu, en það er einmitt stór liður í útgjöldum sauðfjárbænda. Rekstrarkostnaður á meðalkúabúi hefur hækkað um tæpar þrjár milljónir króna síðan í haust, farið úr 21 milljón í 24 milljónir króna yfir árið. Er þá miðað við 188 þúsund lítra framleiðslu á mjólk. Á sama búi hefur t.d. kostnaður fyrir rúllubaggaplast aukist um 80 þúsund krónur.

„Þetta er mjög alvarleg staða og í raun verri en við höfum nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Bara olíuverðið er hreinn hryllingur,“ segir Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði og formaður Landssambands sauðfjárbænda. Hann segist ekki hafa heyrt dæmi þess að bændur ætli að bregða búi vegna þessara hækkana en hins vegar muni menn hugsa sinn gang áður en lengra verður haldið.

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, tekur undir með Jóhannesi um að greiðslustaða bænda sé orðin slæm og geri lítið annað en að versna. Hefur hann heyrt af kúabændum sem komnir eru í verulegan vanda, aðallega sökum aukins fjármagnskostnaðar, en margir kúabændur hafa ráðist í stórar fjárfestingar á búum sínum. Fjós hafa verið endurnýjuð, bú stækkuð og margir fjárfest í mjaltaþjónum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert