Skæðar matareitranir skjóta upp kollinum

Gott hreinlæti og rétt meðhöndlun matvæla er mikilvæg til að …
Gott hreinlæti og rétt meðhöndlun matvæla er mikilvæg til að koma í veg fyrir matarsýkingar í mönnum. mbl.is/Ásdís

Fyrstu fimm mánuði ársins bárust samtals 30 tilkynningar frá sýklafræðideild Landspítala til sóttvarnalæknis um kampýlóbaktersýkinga í mönnum. Þar af voru sex smit á Reyðarfirði í maí. Er smitið þar enn óútskýrt, að því er fram kemur í Farsóttarfréttum landlæknisembættisins.

Í byrjun júní smituðust fjórir starfsmenn og vistmenn á sambýli fyrir aldraða í Reykjavík af salmonellusýkingu. Innlent smit af þessari tegund salmonellu hefur ekki komið upp áður.

Óútskýrt smit á Reyðarfirði þrátt fyrir ítarlega rannsókn

Af þeim sem smituðust af kampýlóbaktersýkingu voru ellefu einstaklingar á Íslandi, átta á Spáni, tveir í Dóminíkanska lýðveldinu og á Ítalíu og einn í Marokkó og Alsír en upplýsingar um smitland vantar fyrir fimm einstaklinga.

Flestir, eða 16 manns, voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, fjórir á Norðurlandi, fjórir einstaklingar komu frá ýmsum landshlutum en nokkuð óvænt greindust sex einstaklingar með búsetu á Reyðarfirði í maímánuði.

Sýkingarnar á Reyðarfirði voru ekki tengdar ferðalögum heldur smituðust einstaklingarnir á staðnum. Upptök smitsins eru ókunn þrátt fyrir ítarlega rannsókn í samvinnu við heilbrigðiseftirlit Austurlands og lækna á Austurlandi.

Svo virðist sem faraldurinn á Reyðarfirði sé genginn yfir. Reglubundnar árstíðabundnar sveiflur í fjölda sýkinga af völdum kampýlóbakters eru vel þekktar með auknum fjölda tilfella á sumrin.

Mjög sjaldgæf salmonellutegund

Í byrjun júní greindust fjórir einstaklingar með innlenda sýkingu af völdum Salmonella poona eða farmsen og eru allir fjórir tengdir sambýli aldraðra á höfuðborgarsvæðinu, tveir starfsmenn og tveir heimilismenn.

Sýkingar af völdum þessarar salmonellutegundar er fremur sjaldgæf og ekki hefur komið upp innlent smit af hennar völdum áður hérlendis.

Í viðvörunarkerfi á vegum Sóttvarnastofnunar Evrópu í Stokkhólmi kom í ljós að sýkingar af völdum S. poona hafa greinst í fleiri löndum Evrópu í apríl og maí, samanlagt milli 30–40 tilfelli. Ekki er með fullu vitað hvort þetta er sami stofn í öllum löndunum, en unnið er við stofnagreiningu til að bera stofnana saman. Svo virðist sem tilfellum fari nú fækkandi og sýkingin því á undanhaldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert