Vantar heimili fyrir konur í neyslu

„Það vantar einhvers konar athvarf sem er mitt á milli Konukots og áfangaheimilis,“ segir kona sem sótt hefur Konukot frá opnun þess fyrir fjórum árum. „Fólk er ekki endilega í stakk búið til að stoppa strax þó auðvitað viljum við öll vera edrú,“ segir hún.

Undir þetta tekur Kristín Helga Guðmundsdóttir verkefnastjóri Rauða krossins í Konukoti og segir engan vafa á að slíkt heimili væri til bóta.

„Það á enginn lögheimili í Konukoti heldur er það bara neyðarnæturathvarf eins og Gistiskýlið. Það eru til tvö heimili í borginni fyrir karlmenn í neyslu en ekkert fyrir konur,“ segir hún.

Leiga og sjálfsvirðing

„Það verður mikil hnignun á sjálfsvirðingu manns við að vera á götunni. Manni finnst maður vera í vonlausri stöðu og engin leið til að koma sér upp úr henni,“ segir fyrrnefndur gestur Konukots.

Hún segir að heimili þar sem konur ættu lögheimili, fengju póst og gætu læst að sér væri mjög uppbyggjandi fyrir sjálfsvirðingu þeirra og gæti virkað eins og stökkpallur til þess að komast á önnur áfangaheimili eða eigin íbúð.

„Við mundum borga leigu og fá aukið sjálfstraust við það. Maður vill ekki vera neinn ómagi, það er hluti af sjálfsvirðingunni að þurfa að hafa aðeins fyrir hlutunum,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst líka eðlilegt að við sýndum viðleitni til að vera húsum hæfar, sem við erum oft ekki. En það mættu ekki vera svo stífar reglur að fólk springi á limminu.“

„Við viljum fá að vera saman,“ segir heimilislaust par sem 24 stundir ræddu við í gær. Þau segja það óásættanlegt að setja það sem skilyrði að fólk fari í meðferð svo það fái húsnæði. Enn hefur færanlegum smáhýsum, sem borgin hefur fest kaup á og ætluð eru einstaklingum og pörum, ekki verið fundinn staður.

Jórunn Frímannsdóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar játar að heimili vanti fyrir konur í neyslu en stefnt sé að því að koma því á fót á þessu ári. Þá sé unnið í því að semja um stað fyrir smáhýsin. „Við ætlum okkur að reyna að opna þau fyrir veturinn,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert