Akrein lokað tímabundið á Miklubraut

mbl.is/Júlíus

Á Miklubraut er nú unnið að lagningu nýrrar sérakreinar fyrir strætisvagna á norðurakbraut frá Skeiðarvogi að Grensásvegi. Þessa dagana er unnið að jarðvegsskiptum og þarf því að grafa allt að 2ja metra djúpan skurð meðfram kantsteini eldri akreinar. Til að auka öryggi vegfarenda og starfsmanna á framkvæmdatíma verður akrein næst framkvæmdastað lokað tímabundið fram í miðja næstu viku.  

Akreinin verður opnuð á ný þegar jarðvegsskiptum er lokið. Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem af þessum þrengingum hlýst og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og tillitssemi við framkvæmdasvæðið, að því er segir í tilkynningu frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

Sérakrein frá Skeiðarvogi að Kringlu

Sérakrein strætisvagna mun liggja frá Skeiðarvogi að göngubrú yfir Miklubraut til móts við Kringluna. Einnig verða hægri beygjuvasar af Miklubraut inn á Grensásveg og Háaleitisbraut lengdir og hliðrað til norðurs.

Allar lagnir umferðarljósa á gatnamótum Miklubrautar við Grensásveg og Háaleitisbraut verða endurnýjaðir ásamt umferðareyjum og umferðarljós færð til og endurnýjuð. Jafnframt verða gönguleiðir endurnýjaðar á gatnamótum. Settar verða upp götuvitabrýr yfir Miklubraut á þessum sömu gatnamótum og mun það auka öryggi vegfarenda. Endurnýja þarf niðurföll í norðurkanti Miklubrautar og regnvatnslagnir að hluta.  Hljóðmön verður gerð norðan Miklubrautar frá Grensásvegi að göngubrú við Kringlu.

Verkið á að ganga mjög hratt fyrir sig, en verklok eru áætluð 14. ágúst, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert