H-listinn í Vogum vill íbúakosningu um raflínur

Vogar á Vatnsleysuströnd.
Vogar á Vatnsleysuströnd.

Bæjarfulltrúar H-listans í Vogum vilja að fram fari íbúakosning um nýjar raflínur í landi sveitarfélagsins. Meirihlutinn telur hins vegar að þetta sé mál sem bæjarstórn beri að taka ákvörðun um en ekki bæjarbúar.

H-listinn sem er listi óháðra borgara er í minnihluta í bæjarstjórn en E listi Stranda og Voga er í meirihluta. Telur H-listinn að bæjarstjórn sé bundin af skýrum vilja sem fram hafi komið á íbúafundi síðasta sumar þar sem samþykkt var að leggja allar nýjar raflínur innan marka sveitarfélagsins í jörð.

Þetta kemur fram í bókun H-listans frá síðasta bæjarstjórnarfundi.

Bókunin er svohljóðandi: „Við teljum að bæjarstjórn sé bundin af skýrum vilja íbúafundar frá 20. júní 2007 þar sem samþykkt var að leggja allar nýjar raflínur í landi sveitarfélagsins í jörð. Ef nýjar upplýsingar hafa komið fram sem breytt gætu afstöðu bæjarbúa förum við fram á að íbúar sveitarfélagsins greiði atkvæði um málið í íbúakosningu að afstaðinni ítarlegri kynningu þar sem meðrök og mótrök eru lögð á borðið. Þrátt fyrir að afstaða bæjarfulltrúa H- listans sé að slíkar línur skuli skilyrðislaust fara í jörð lýsum við okkur reiðubúin til að nýta skipulagsvaldið til að fara að vilja meirihluta íbúa sveitarfélagsins í málinu, hver sem hann kann að vera.“

Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, segir stöðu málsins vera þá að línumannvirki séu nú til vinnslu hjá Suðurlindum og verið sé að vinna að sameiginlegri tillögu.

Hluthafar í Suðurlindum eru Grindavíkurkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Vogar. Þegar Suðurlindir hafi fullunnið tillögu verði hún tekin fyrir í bæjarstjórn.

„Á þessum fundi síðasta sumar lágu engin gögn fyrir svo það sem réði var hugur fólks og tilfinning. Nú liggur hins vegar fyrir mikið af gögnum,“ segir Birgir. Hann segir að íbúafundur hafi verið haldinn um málið og það því vel kynnt.

Þegar tillaga Suðurlinda hefur verið send Landsneti mun hún verða tekin fyrir í bæjarstjórn og í framhaldi af því kynnt bæjarbúum. Hann sagði að ólíkt minnihlutanum þá vilji meirihlutinn að samkomulagi verði náð, hvort sem línurnar verða í lofti eða á jörðu. 

Birgir sagði að lokum að frá sínum bæjardyrum séð sé almennt ekki hægt að útiloka íbúakosningar enda sé engin forskrift til af þeim. „En það er hins vegar skoðun meirihutans að þetta sé ákvörðun bæjarstjórnar og eigi ekki að fara í íbúakosningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert