Frjómagn aldrei jafn mikið í Reykjavík

Arnaldur Halldórsson

Frjómagn í júní losaði 1600 frjó/m3 í Reykjavík sem er það mesta sem mælst hefur í júní til þessa, enda var veðurfar í júní einstaklega hagstætt frjódreifingu, þurrt og tiltölulega hlýtt. Heildarfjöldi grasfrjóa (549 frjó/m3) reyndist 200 fleiri en í júní 2003 sem er mesta frjósumarið hingað til. Súrufrjó mældust alla daga mánaðarins, fóru hæst í 21 þann 27. júní.

Frjótölur reyndust óvenju háar síðustu dagana í júní (sjá myndrit) og eru yfir meðaltali á árabilinu 1988–2007 sem á sér skýringu í góðum veðurskilyrðum, mikilli grósku og óslegnum túnum við Veðurstofuna (en þar er frjógildran staðsett).

Í hópi frjókorna annarra frjógerða en þeirra sem tíundaðar eru vegna ofnæmisáhrifa á fólk bar mest á frjókornum af rósaætt (t.d. heggur og reynir), furu- og staraætt, að því er segir í tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Framundan er aðalfrjótími grasa á Íslandi en hámarkið kemur jafnan í síðari hluta júlí eða í byrjun ágústmánaðar. Verði skilyrði til frjódreifingar áfram góð, þ.e. þurrviðrasamt og hæfilegur vindur, má búast við hámarkinu jafnvel strax um miðjan júlí, því að nú eru tegundir blómgaðar sem oft blómgast fyrst þegar kemur fram í ágúst.

Færri frjókorn í júní en maí á Akureyri

Á Akureyri mældust mun færri frjókorn í júní en í maí, heildarfjöldinn í júní varð 359 frjó/m3. Mest var um birkifrjó í júní en samfellt tímabil birkifrjóa náði fram að 8. júní, en það hófst 23. maí. Þannig varð birkitíminn á Akureyri styttri og snarpari en oft áður.

Grasfrjó hafa mælst flesta daga frá 10. júní en frjótölur verið lágar, fóru aldrei yfir 10 (sjá myndrit). Heildarfjöldi grasfrjóa reyndist 46 frjó/m3 og hefur þrisvar verið lægri en það var árin 1998, 1999 og 2001. Súrufrjó hafa mælst þrisvar í mánuðinum. Af öðrum frjógerðum en þeim sem taldar eru upp vegna ofnæmisáhrifa á fólk reyndust frjó af rósaætt, staraætt og furuætt algengust í júní á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert