Stúkan fór úr 300 milljónum í 870

Knattspyrnuleikur á Kópavogsvelli.
Knattspyrnuleikur á Kópavogsvelli. mbl.is/G. Rúnar

Kostnaður vegna nýrrar stúku við Kópavogsvöll og tengdra framkvæmda var 870 milljónir. Þegar farið var af stað með framkvæmdina árið 2005 var gert ráð fyrir að kostnaður yrði 300 milljónir.

„Við áætluðum þetta mannvirki upphaflega langtum minna,“ segir Gunnar Birgisson bæjarstjóri Kópavogs. Hann segir að talsvert hærri upphæðir hafi farið í jarðvegsvinnu en upphaflega var gert ráð fyrir, þar sem jarðvegsdýpi var töluvert meira en talið var.

„Þá vorum við komnir upp í 400 milljónir."

Ákveðið var að bæta við aukahæð með t.d. aðstöðu fyrir fréttamenn, móttökusal og skrifstofum. Svo var ákveðið að setja á hana þak, sem var ekki í upphaflegri áætlun,“ segir Gunnar. Almenn hækkun verðlags hafi einnig haft áhrif á að endanlegur kostnaður var meiri en gert var ráð fyrir.

„Þetta er glæsilegt mannvirki sem ég held að sé mikil ánægja með, og bænum til sóma,“ segir Gunnar.

Flosi Eiríksson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, tekur undir með Gunnari um að almenn ánægja sé með mannvirkið. „En það er vonandi að menn læri af þessum framúrakstri svo kostnaðarætlanir standist betur.“

Í hnotskurn
Ný stúka við Kópavogsvöll var vígð fyrir upphaf yfirstandandi knattspyrnutímabils, en hún rúmar 1.360 áhorfendur. Heildarkostnaður vegna stúkunnar var 570 milljónir, kostnaður við velli 100 milljónir og vegna bílastæða 200 milljónir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert