Þurfa að þola saklausa för um lönd sín

Ferðamenn í Reynisfjöru
Ferðamenn í Reynisfjöru mbl.is/Rax

Í kjölfar frétta af raunum þýskra hjóna í Reynisfjöru í síðustu viku, spruttu upp deilur um hver eigi að bera ábyrgð á því að setja upp viðvörunarskilti á svæðinu, sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Þá hafa ferðaskrifstofur undanfarið deilt við Kerfélagið um hvort hið síðarnefnda megi rukka ferðskrifstofurnar fyrir ferðir að Kerinu.

Bæði málin vekja spurningar um hver sé réttur landeigenda á vinsælum ferðamannastöðum og hvort ríkið, landeigendur eða þeir sem gera út á svæðin eigi að standa straum af kostnaði sem fylgir komu ferðamanna á staðina.

„Almenna reglan er sú að menn verði að þola meinalausa för um lönd sín,“ segir Sigurður Líndal, prófessor emiritus í lögum. „Ef átroðningur verður er ekki lengur um meinalausa för að ræða og ég sé ekki annað en að menn geti þá áskilið sér einhverjar greiðslur fyrir það.“

Sigurður segir það vera álitamál á herðum hvers það eigi að vera að setja upp viðvörunarskilti á stöðum á borð við Reynisfjöru. „En auðvitað má segja að þeim sem gera út á viðsjárverða staði beri að tryggja að menn séu ekki að fara sér að voða og gera þær ráðstafanir sem eru vænlegar til að koma í veg fyrir það.“

Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir að enn hafi enginn vilja taka ábyrgð á því að setja upp viðvörunarskilti í Reynisfjöru. „Ég sé ekkert að því að sveitarfélagið komi að því í samstarfi við aðra. En sveitarfélaginu ber ekki skylda til að meta og merkja hættulega staði.“

Viðmælendur 24 stunda eru flestir þeirrar skoðunar að skortur sé á skýrum reglum í þessum efnum. Ræða þurfi betur hvort vilji sé til þess að landeigendur girði af svæði og taki gjald af ferðamönnum, t.d. til að standa straum af viðhaldi, eða hvort ríkið greiði einfaldlega fyrir viðhald á vinsælum ferðamannastöðum.

Í þeirri umræðu segja sumir að taki landeigendur gjald af ferðamönnum eða ferðaskrifstofum, hækki kostnaður við Íslandsferðir talsvert. Á endanum geti það orðið til þess að ferðamönnum fækki og tekjur af ferðamönnum minnki. Á móti benda aðrir á að óeðlilegt sé að ferðaskrifstofur geti gert út á heimsóknir að löndum sem eru í einkaeigu, án þess að fyrir það sé greitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert