4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann á sextugsaldri í 4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum, stjúpdóttur og fjórum vinkonum þeirra. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunum miskabætur, frá 150 þúsund króna til 2 milljóna.

Maðurinn, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá því í apríl, var m.a. sakfelldur fyrir að hafa í þrjú skipti haft kynferðismök, önnur en samræði, við stjúpdóttur sína þegar stúlkan var innan við 14 ára gömul. Þá var hann fundinn sekur um kynferðislega áreitni gagnvart stúlku, sem þá var 10 ára.

Rakinn er í dómnum aðdragandi þess að málið komst upp. Þar segir,  að framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur hafi í febrúar á þessu ári skrifað bréf til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem sett var fram beiðni um að fram færi lögreglurannsókn vegna gruns um að maðurinn hafi framið kynferðisbrot gegn stúlku, sem fædd er árið 1998.

Er í bréfinu vísað til þess að stúlkan hafi nokkrum dögum áður sagt foreldrum sínum, frænku og fjölskylduráðgjafa frá því að hún hafi stundum þegar hún gisti á heimili vinkonu sinnar vaknað nærbuxnalaus. Þá hafi heimilsfaðirinn oft lagst nakinn hjá þeim.

Sama dag ritaði félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustunni í Kópavogi lögreglu bréf, sem samkvæmt yfirskrift þess er tilkynning um meinta kynferðislega misnotkun gagnvart dóttur mannsins. Er í bréfinu gerð grein fyrir því að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi á árinu 2004 borist tilkynningar undir nafnleynd þar sem lýst hafi verið áhyggjum vegna aðbúnaðar barna á heimili mannsins og eiginkonu hans. Í einni þeirra hafi meðal annars komið fram að maðurinn gengi um nakinn á heimili sínu, bæði fyrir framan sín börn og gestkomandi börn. Hafi þessar tilkynningar leitt til athugunar af hálfu nefndarinnar en henni hafi að því gerðu verið hætt í nóvember þetta ár.

Málið hafi síðan verið tekið upp aftur árið 2006 vegna tilkynninga sem þá bárust, en á fundi í barnaverndarnefnd Kópavogs 31. maí 2007 hafi verið tekin ákvörðun um „útskrift máls“, eins og það er orðað.

Hinn 19. febrúar 2008 hafi síðan borist tilkynning frá Heilsugæslustöðinni í Grafarvogi vegna einnar stúlkunnar. Í niðurlagi þess bréfs  segir, að barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík og Kópavogi hafi borist sex tilkynningar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga. Allar varði þær meint kynferðislegt ofbeldi mannsins gagnvart dætrum hans og vinkonum þeirra. Er þess óskað að málið verði tekið til opinberrar rannsóknar.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að maðurinn hafi gerst sekur um mörg kynferðisbrot gegn barnungum stúlkum og að sum þeirra séu mjög alvarleg. Brot hans tóku að hluta til yfir langt tímabil og hann nýtti sér sakleysi stúlknanna og trúnað og traust sem dætur hans og stjúpdóttir báru til hans. Þá hafi  framburður hans einkennst af því að hann vilji draga úr ábyrgð sinni og varpa þeim yfir á þolendur misgjörða sinna, en á þessu hafi einkum borið þegar maðurinn lýsti afstöðu sinni til þeirra brota gagnvart stjúpdóttur sinni og annarrar stúlku.

Auk miskabóta til stúlknanna, sem nema samtals 4125 þúsund krónum, er manninum gert að greiða sakarkostnað, samtals um 3,2 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert