Tíu laxar úr Jöklu

Veiðiverðir og veiðimenn hafa verið duglegir að kanna nýja veiðistaði …
Veiðiverðir og veiðimenn hafa verið duglegir að kanna nýja veiðistaði á neðra veiðisvæði Jökulsár á Dal. Hér eru menn að veiðum uppi í Kaldá, einni af þverám Jöklu í Jökulsárhlíð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Lax er byrjaður að veiðast í Jökulsá á Dal. Er þetta fyrsta alvöru laxveiðin í ánni sjálfri. Enn sem komið er hefur veiðin eingöngu verið í neðsta hluta árinnar. Lítið hefur verið reynt á Jökuldal en menn eru ekki úrkula vonar um að lax finnist þar áður en jökulvatn fer að flæða í hana á yfirfalli Kárahnjúkastíflu, en Landsvirkjun áætlar að það gerist um miðja næstu viku.

Um 40 laxar höfðu í gær veiðst á vatnasvæði Jöklu, þar af 10 úr Jöklu sjálfri, allir neðan brúar á Hringvegi. Skilyrði sköpuðust til veiða í Jöklu eftir að Kárahnjúkastífla var byggð enda áin að mestu tær bergvatnsá eftir það. Veiðiþjónustan Strengir tók ána á leigu og hefur verið að sleppa seiðum til að auka laxgengd en náttúrulegir laxastofnar eru auk þess í hliðarám.

Fallegir veiðistaðir

„Þetta er spennandi og mikið verkefni, Jökla nær yfir stórt svæði og hyljirnir eru stórir,“ segir Sigurður Staples, Súddi, veiðileiðsögumaður hjá Strengjum. Hann var fenginn úr Breiðdalnum til að leita að góðum veiðistöðum í Jöklu með heimamönnum. Þeir hafa einbeitt sér að neðsta hluta Jökulsár, enda næg verkefni þar. Ekkert hefur verið farið upp á Jökuldal, enn sem komið er. Þröstur Elliðason, eigandi Strengja, vonast til að laxveiði verði einnig í efri hluta árinnar en reyna þurfi betur á það. Guðmundur Ólason, veiðivörður í Jöklu, segir að farið verði til veiða á efra svæðinu um helgina og reynt að kanna vel ákveðin svæði, jafnvel alla leið upp í Hrafnkelu.

Laxveiði hefur lengi verið í þverám Jökulsár en lítil í ánni sjálfri, eins og gefur að skilja. Skúli Björn Gunnarsson, sem ólst upp á bökkum árinnar, segir að lax hafi stundum veiðst í net á vatnaskilum, þar sem lækir renna út í ána. Hann hefur sett í laxa þar í sumar og veiddi einn á flugu og segir að þarna séu margir fallegir veiðistaðir.

Að sögn Skúla eru sögur til af laxveiðum á Jökuldal en þær hafa ekki verið staðfestar. Þar veiðist hins vegar bleikja sem hann telur að sé komin úr vötnum frammi á heiði. Skúli Björn getur ekki frekar en aðrir svarað því hvort þrengingar í Jökulsá, ofan við brúna á Hringveginum, hamli því enn að lax gangi upp á Jökuldal, segir að reynslan verði að skera úr um það.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert