Tekist á um réttinn til að stýra fiskveiðunum

Áróður WWF er ástæðan fyrir því að þrjár stærstu stórmarkaðakeðjur Sviss hættu að selja íslenskan þorsk, að sögn Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ.

Friðrik segir að þetta snúist ekki aðeins um vottun sjálfbærra veiða, heldur sé tekist á um réttinn til að stýra fiskveiðum og nýta villta fiskistofna – hvort lýðræðislega kjörin stjórnvöld geri það eða umhverfisverndarsamtök í gegnum kjörbúðir.

Og málið er litið alvarlegum augum af LÍÚ, sem hyggur á aðgerðir. „Við höfum tekið það upp við íslensk stjórnvöld að þau beiti sér af alefli til að koma í veg fyrir að þetta hafi frekari skaðleg áhrif,“ segir Friðrik. „Fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafa farið til fundar við svissneska stórmarkaðakeðju til að kynna málstað okkar en vandinn liggur í því að keðjurnar láta WWF stjórna því hvaða fisk þær selja.“

LÍÚ hefur ásamt sendiráði Íslands í London, fulltrúa Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsráðherra skipulagt fundi með helstu fiskkaupendum í Bretlandi til að kynna íslenska fiskveiðistjórnun og ástand fiskistofna. Og íslenskur sjávarútvegur vinnur að því á vettvangi Fiskifélagsins að koma á vottun um ábyrgar veiðar úr helstu nytjastofnum við Ísland. Byggt verður á leiðbeiningareglum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, og óháður aðili verður fenginn til að votta veiðarnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert