Mótuð verði skýr stefna um störf friðargæslunnar

Sverri Hauki Grönli, Stefán Gunnarsson og Steinar Örn Magnússon urðu …
Sverri Hauki Grönli, Stefán Gunnarsson og Steinar Örn Magnússon urðu fyrir árás sjálfsvígssprengjumanns í Kabúl í október 2004. mbl.is/Golli

Höfundar álitsgerðar um um árás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl í október 2004 leggja til að mótuð verði skýr stefna um hvaða störf friðargæsluliðar megi stunda og að dregin verði skýr mörk á milli borgaralegra og hernaðarlegra starfa.

Þeir segja að það verði að setja ítarlegar reglur um hvernig ferðum friðargæsluliða á hættusvæðum skuli háttað og vinna þurfi markvissar áætlanir um viðbrögð við ófyrirséðum atvikum. Þá er lagt til að yfirvöld láti almennt fara fram rannsókn á atvikum sem þessum eins og tíðkist í nágrannalöndum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra,  kynnti þær útbætur sem ráðuneytið hefur nú þegar ráðist í á blaðamannafundi í dag. Unnið er að gerð viðbragðsáætlana, samstarf er við sálfræðing og upplýsingagjöf til fjölmiðla aukin. Þá hafa reglur um ferðir friðargæsluliða verið skýrðar, svo og lög um tryggingamál. Þessari vinnu verður haldið áfram.

Ingibjörg Sólrún sagði nauðsynlegt að skilgreina enn frekar í hvaða tilvikum friðargæsluliðar geti starfað innan herkerfis sem borgaralegir starfsmenn. Íslenskir friðargæsluliðar eigi ekki að bera vopn, nema í sérstökum tilvikum og þá því aðeins að um sé að ræða sérþjálfaða aðila sem hafi heimild til slíks í störfum hérlendis.  Í þeim tilfellum sé um sérhæfð störf að ræða og vopnaburð til sjálfsvarnar eins og heimilað er í friðargæslulögunum.

Á næstu mánuðum mun ráðuneytið því hætta að manna þær sjö stöður þar sem íslenskir friðargæsluliðar hafa þurft að bera vopn og tign við almenn eftirlits- og rekstrarstörf í Afganistan. Verða borgaralegir, óvopnaðir sérfræðingar boðnir fram í þessi störf, samræmist slíkt reglum öryggissveita ISAF.

Ingibjörg Sólrún fundaði með friðargæsluliðunum í gær og lét þá hafa skýrsluna í heldur. Auk þess hefur utanríkismálanefnd Alþingis fengið skýrsluna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert