Silfurvélin lögð af stað til Íslands

Ólafur Stefánsson með silfurverðlaunapeninginn
Ólafur Stefánsson með silfurverðlaunapeninginn mbl.is/Brynjar Gauti

Silfurvélin, Boeing 757 þota Icelandair, sem íslenska landsliðið í handbolta  kemur með, lagði af stað frá Frankfurt klukkan tólf á hádegi til Íslands.  Flugstjóri í ferðinni er Bjarni Frostason, fyrrverandi markvörður handboltalandsliðsins. Flugliðar í áhöfninni verða klæddir gömlum landsliðstreyjum.

Áætlað er að flug FI 521 frá Frankfurt lendi í Keflavík klukkan 15:35. Frá Keflavík mun sama vél flytja landsliðið yfir til Reykjavíkur. Vélin mun lenda á Reykjavíkurflugvelli klukkan 16:30.

Á leiðinni til Reykjavíkur verður mynduð heiðursfylking yfir Straumsvík. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og DC-3 vél Þristavinafélagsins, Páll Sveinsson, munu fylkja sér um Boeing 757 þotuna og fylgja strákunum loka mínúturnar inn til lendingar, að því er segir í tilkynningu. Flogið verður yfir höfuðborgarsvæðið.     

Við Flugskýli 1 á Reykjavíkurflugvelli verður tekið á móti landsliðinu og fylgdarliði.

Handboltalandsliðið mun aka í opnum vagni frá Skólavörðuholti kl. 18:00 í fylgd lúðrasveitar, fánabera ungs íþróttafólks og lögreglu, og verður ekið niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhól. Þar fer fram fagnaðarfundur þjóðarinnar undir stjórn Valgeirs Guðjónssonar, þar sem íþróttafólkið verður hyllt fyrir glæsilega frammistöðu á Ólympíuleikunum.

Landsmenn eru hvattir til að taka þátt í dagskránni með því að fagna silfurverðlaunahöfunum á leiðinni og fjölmenna á Arnarhól. Að ósk lögreglu er almenningi bent á að nota almenningssamgöngur til að komast í miðborgina, leggja bílum sínum í bílastæðahús eða í hæfilegri fjarlægð frá samkomustaðnum til að greiða fyrir umferð.

Minnt er á að það er ókeypis í strætó í dag frá kl. 15:00. Bæði verður sjónvarpað og útvarpað frá ferð liðsins frá Skólavörðuholti og fagnaðarfundinum á Arnarhól, og verður hægt að fylgjast með allri dagskrá heimkomunnar á risaskjá við Arnarhól frá kl. 16:00, að því er segir í tilkynningu.

Íslenskir áhorfendur á úrslitaleiknum í Peking á sunnudaginn
Íslenskir áhorfendur á úrslitaleiknum í Peking á sunnudaginn mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert