Erlendir fjölmiðlar fjalla um komu flóttamanna til Íslands

Frá flóttamannabúðunum í Al Waleed í Írak
Frá flóttamannabúðunum í Al Waleed í Írak


Talsvert er fjallað um komu palestínska flóttafólksins frá Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak til Íslands í erlendum fjölmiðlum í dag. Um er að ræða 29 manns. Á forsíðu fréttavefjar BBC kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hefur fólkið búið við slæmar aðstæður í búðunum í tvö ár. Á sumrin er hitinn oft um 50 gráður á celsíus og fer niður fyrir frostmark á vetrum.

Flestir flóttamannanna sem koma til Íslands í kvöld eru konur og börn. Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð SÞ hafa Svíar samþykkt að taka á móti 155 flóttamönnum úr öðrum flóttamannabúðum þar sem Palestínumenn sem bjuggu í Írak dvelja.

Alls dvelja um 2.300 Palestínumenn í búðunum en þeir hafa ekki fengið heimild til þess að setjast að í Sýrlandi. Kemur fram í fréttinni að á hverju ári taki Íslendingar við 25-30 flóttamönnum, í flestum tilvikum konum og börnum.

Talið er að 34 þúsund Palestínumenn hafi búið í Írak áður en Saddam Hussein var komið frá völdum árið 2003. Um 20 þúsund þeirra flúðu frá Írak á tímum Íraksstríðsins. Flestir þeirra enda í Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak og í Al-Tanf búðunum sem eru á landamærum Sýrlands og Íraks. Allur aðbúnaður er af skornum skammti í búðunum og er næsta læknishjálp í 400 km fjarlægð frá búðunum.

Flóttafólkið kemur til Íslands kl. 23.10 í kvöld eftir langt og strangt ferðalag frá Írak. Fjölskyldunum verður svo tafarlaust ekið til sinna nýju heimkynna á Akranesi.

Flóttamannanefnd vann að vali fjölskyldnanna sem boðið var hæli hér á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Íslensk stjórnvöld, Akranesbær og Rauði krossinn sjá um móttöku fjölskyldnanna. Fólkið tekur þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Akranesbær útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Börn og ungmenni munu sækja leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í bænum. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert