Framkvæmdir undirbúnar í Bakkafjöru

Námutrukkar og búkollur frá Suðurverki eru mætt á svæðið en …
Námutrukkar og búkollur frá Suðurverki eru mætt á svæðið en grjótið í Landeyjarhöfn kemur ofan af Fagrafelli og Seljalandsheiði, sem eru í baksýn ásamt Seljalandsfossi. Heimamenn hafa margir hverjir áhyggjur af því umhverfisraski sem verður vegna framkvæmdanna á ásýnd vatnsfallsins. mbl.is/Steinunn Ósk

Verktakinn við fyrirhugaða Landeyjarhöfn í Bakkafjöru, Suðurverk, er byrjaður að koma sér fyrir með vinnubúðir og tækjabúnað. Fljótlega verður byrjað að byggja upp núverandi vegslóða upp á Hamragarðaheiði og Seljalandsheiði, fyrir ofan Seljalandsfoss, þar sem grjót- og malarnámur verða fyrir hafnar- og vegaframkvæmdir.

Grjótflutningabifreiðir munu aka dágóða leið niður af heiðunum, yfir Þórsmerkurveg og hringveginn niður að sjó. Í matsskýrslu Skipulagsstofnunar kemur fram að farnar verði 30-40 þúsund ferðir, allt háð stærð flutningatækja. Flytja á 500 þúsund rúmmetra af grjóti niður af heiðinni og 50 þúsund rúmmetra af möl.

Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, segir að líklega verði ferðirnar ríflega 30 þúsund talsins með efni í hafnargerðina og til þess notaðir öflugir námutrukkar sem hafa verið í notkun við Kárahnjúka og víðar. Vinna við vegagerð upp á heiðarnar hefst fljótlega og reiknar Dofri með að grjótnám geti hafist eftir 1-2 mánuði. Suðurverk fékk samþykki fyrir styttingu vegslóðans í grjótnámuna og fer hann því á öðrum stað yfir Seljalandsá og nær Seljalandsfossi.

Mikil áhrif á umhverfið

Fram kom í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir, og þar með talið grjótnám á Seljalandsheiði, væru umfangsmiklar og hefðu áhrif á svæði sem væru lítt röskuð eða óröskuð.

Taldi stofnunin að neikvæð sjónræn áhrif yrðu einkum vegna veglagningar að efnistökusvæðum og vegna grjótnáms á heiðinni. Neikvæð áhrif á gróður yrðu talsverð. Einnig var tekið undir þá niðurstöðu framkvæmdaraðila, hvað varðar áhrif efnistöku á landslag og ósnortin víðerni, að um talsverð neikvæð áhrif yrði að ræða á nær óraskað heiðasvæði og áhrifin yrðu að mestu varanleg. Var áhersla lögð á samráð við Umhverfisstofnun og verktaka um frágang og lagningu vega að námunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert