Guðlaugur settur á mynd með Gaddafi

Myndskreyting á heimasíðu Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri grænna, hefur vakið nokkra athygli, en þar skeytir hann andliti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra inn á mynd með Moammar Gaddafi, Lýbíuforseta.

Ögmundur segir Guðlaug og Gaddafi eiga það sammerkt að þurfa ekki að færa djúp rök fyrir afstöðu sinni þegar ráðist er í breytingar á samfélaginu, og vísar í nýja Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun á heilbrigðissviði. Ögmundur segir viðbrögð við myndinni almennt góð frá þeim sem hafi húmor og innsæi í hið pólitíska augnablik. Stöku sinnum verði hann var við önuga lesendur. „Hinir eru miklu fleiri, sem kunna að meta að lognmollunni sé blásið frá,“ segir Ögmundur

Aðpurður segist Guðlaugur Þór í gær hafa fengið sterk viðbrögð frá fólki sem telur myndina óviðeigandi. „Að spyrða mig saman við Gaddafi, sem er morðingi sem hefur látið myrða konur og börn, það finnst mér ansi lágt lagst. Mér finnst það mikið umhugsunarefni að formaður þingflokks stærsta stjórnarandstöðuflokksins sjái sóma sinn í því að gera þetta,“ segir hann. Um gagnrýni Ögmundar í pistlinum segir Guðlaugur af og frá að hann hafi veigrað sér við umræðunni. Hann hafi haldið fundi um málið og farið að óskum stjórnarandstöðu á þingi. Að hennar ósk sé það klárað í haust en ekki sl. vor. „Menn hafa haft öll tækifæri til þess að ræða þetta einstaka mál.“

Heimasíða Ögmundar Jónassonar

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert