Börnin bíða eftir tækifæri til að tala

mbl.is

Hægt er að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi með fræðslu og forvörnum og einn liður í því er brúðuleikhússýningin Krakkarnir í hverfinu sem Blátt áfram stendur fyrir í grunn- og leikskólum.

Hallveig Thorlacius brúðuleikari hefur ferðast víða með sýninguna og segir ótrúlegt hvað börnin þurfa að spyrja mikið eftir sýninguna. „Það er nánast eins og þau hafi verið að bíða eftir tækifæri til að tala um þetta.

Sýningin okkar er upprunalega bandarísk en þetta er fræðslusýning frá Kids on the Block sem er fyrirtæki sem framleiðir svona efni um eitthvað sem getur verið erfitt fyrir börn að tala um.“

Hvött til að segja frá

Í leikþættinum sem fjallar um kynferðislegt ofbeldi eru tvær brúður að tala saman, að sögn Hallveigar. „Við sjáumst alveg á bak við brúðurnar en krakkarnir gleyma okkur mjög fljótt og beina orðum sínum að brúðunum. Þetta fer þannig fram að það eru alltaf tvær brúður á sviðinu í einu. Önnur þeirra varð fyrir kynferðislegu ofbeldi og er að útskýra fyrir hinni alls konar hluti. Hún segir frá því sem kom fyrir hana og jafnframt frá því hvernig hún fór að því að segja frá ofbeldinu og hvernig hún fékk hjálp. Að því loknu býður brúðan börnunum að spyrja spurninga ef þau langar til að vita meira, sem er oftast tilfellið og brúðan sér þá um að svara,“ segir Hallveig og bætir við að á staðnum sé alltaf sálfræðingur eða félagsráðgjafi til að beina málum í réttan farveg ef eitthvað kemur upp á. „Í sýningunni eru börn hvött til að segja frá ef eitthvað skrýtið eða óþægilegt gerist, sérstaklega ef þeim er sagt að þau megi ekki segja frá því. Það þarf ekki endilega að vera að barnið segi frá ofbeldinu á staðnum, því oft segir barnið frá því seinna.“

Skilar árangri

Sýningin virðist hafa mikil áhrif á börnin því Hallveig veit dæmi þess að átta tilkynningar hafi komið inn á borð barnaverndarnefndar eftir að sýningin var haldin í einum bæ hér á landi. „Svipaða sögu má segja um árangur sýningarinnar í Bandaríkjunum því nýleg rannsókn leiddi í ljós fylgni á milli tilkynninga um kynferðisleg brot og sýninga brúðuleikhússins. Um það bil eina af hverjum þremur tilkynningunum er hægt að tengja við brúðuleikhússýninguna,“ segir Hallveig og bætir við að hún sé virkilega þakklát fyrir að fá að taka þátt í svona verkefni. „Ég finn það greinilega að verkefnið skilar miklum árangri á sviði þar sem þarf að vera árangur.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert