Becromal: Vilja tvöfalda framleiðsluna strax á næsta ári

Unnið við byggingu verksmiðju Becromal í Krossanesi á Akureyri í …
Unnið við byggingu verksmiðju Becromal í Krossanesi á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Forsvarsmenn ítalska fyrirtækisins Becromal stefna enn að því að taka aflþynnuverksmiðju fyrirtækisins á Krossanesi við Akureyri í notkun fyrir jól og upplýst var í dag að þeir vonast til þess að tvöfalda framleiðsluna strax á næsta ári. Starfsmenn verða í fyrstu tæplega 100 og verður þetta stærsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum.

Aflþynnuverksmiðja krefst gríðarlega mikillar orku, alls 640 gígavattsstunda á ári sem er hvorki meira né minna en fimm sinnum meira en notað er á öllu Eyjafjarðarsvæðinu núna. Fyrirtækið hefur þegar samið við Landsvirkjun til 30 ára um orku.

Aldo Fasan aðstoðarforstjóri Becromal upplýsti í gær að fyrirtækið stefndi að því strax á næsta ári að tvöfalda framleiðsluna, og væri í raun þegar komið í viðræður við japanskt fyrirtæki - keppinaut Becromal á aflþynnumarkaðnum - í því skyni, og kvaðst hann bjartsýnn á að af stækkuninni yrði, vegna þess að spurn eftir aflþynnum eykst stöðugt.

Ferlið í nýju verksmiðjunni felst í rafgreiningu eða rafhúðun á völsuðum álþynnum með lífrænni sýru. Um er að ræða röð baða þar sem bæði rafhúðun með efnum og hreinsun á yfirborði álþynna fer fram. Þess á milli er yfirborð álþynnanna hreinsað með fosfórsýru. Þegar ferlinu lýkur hefur myndast örþunn filma á yfirborði þynnanna og þá er orðin til fullgerð aflþynna, sem svo er kölluð, sem er til þess að geyma orku í rafmagnsþéttum. Þessar þynnur eru notaðar í ýmiskonar raftæki, t.d. myndavélar og síma og einnig í bíla.

Aflþynnuframleiðsla er sérhæfð hátækni sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir; græn stóriðja, sagði Eyþór Arnalds, samstarfsmaður Becromal, á fundinum í dag.

Nokkrar tafir urðu við framkvæmdirnar í Krossanesi í sumar. Þá var samningi við ítalskt verktakafyrirtæki rift en samið í staðinn við íslenskt, Húsbygg. Allt hefur gengið að óskum síðan og Fasan sagði að verksmiðjan yrði annað hvort gangsett í vikunni fyrir jól eða strax í fyrsta viku nýs árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert