Kartöfluuppskera í meðallagi

Nýjar kartöflur.
Nýjar kartöflur. mbl.is/Golli

Árið 2008 er ár kartöflunnar og voru margir að vona að því yrði fagnað með metuppskeru í haust. Svo ætlar þó ekki að verða, þrátt fyrir hagstætt tíðarfar. Er allt útlit fyrir að kartöfluuppskeran verði í meðallagi að þessu sinni, að sögn Bergvins Jóhannssonar, bónda á Áshóli í Grýtubakkahreppi, formanns Landssambands kartöflubænda.

Bergvin segir að nú sé verið að taka upp kartöflur af fullum krafti á landinu öllu. Vel hefur gengið að taka upp úr kartöflugörðunum og ekki hafði Bergvin neinar fréttir af því að rigningar á Suðurlandi hefðu hindrað menn. Að sögn Bergvins er jöfn og góð uppskera um land allt. Þykkvibærinn er helsta kartöfluræktarsvæði landsins og þar er uppskeran 15 föld. Í Eyjafirðinum er uppskeran 18-20 föld. Er þetta nokkuð svipað og í meðalári. Sömu sögu er að segja frá Hornarfirði.

Framleiðslan undanfarin ár hefur verið 13-14 þúsund tonn og reiknar Bergvin að hún verði eitthvað svipuð á þessu hausti. Uppskera síðasta árs dugði fram til mánaðamótanna maí/júní á þessu ári. Um það leyti var innflurningur hafinn á erlendum kartöflum og voru þær seldar jafnhliða þeim íslensku.

Að sögn Bergvins hafa öll aðföng hækkað gríðarlega frá í fyrra og hefur það komið illa niður á kartöflubændum eins og öðrum bændum í landinu. Áburður hefur hækkað gríðarlega frá í fyrra, en taka má sem dæmi að jafn mikill áburður er notaður á kartöflugarða og tún. Bergvin segir að kartöflubændur hafi fengið ágætt verð fyrir framleiðsluna í sumar, þegar kartöflur voru að koma á markaðinn. Síðan hafi verðið farið niður og bændur séu almennt óánægðir með það verð sem þeir fá um þessar mundir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert