Hætt við óvissuferð vegna slæms orðspors nemenda

Menntaskólinn á Ísafirði.
Menntaskólinn á Ísafirði. mbl.is/ Halldór

Fyrirhuguð óvissuferð Nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði á föstudag hefur verið slegin af. Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari MÍ segir að ekki sé hægt að leyfa slíka ferð í nafni skólans vegna slæms orðspors hennar undanfarin ár.

„Ég lít svo á að mörg undanfarin ár hafi alltaf verið uppákomur og eftirmál. Umgengi og umgjörð þessarar ferðar hefur verið með þeim hætti að ég vil ekki bendla skólann við slíkar ferðir. Nemendur skólans verða að fara að taka sig á hvað þetta varðar,“ segir Jón Reynir við fréttavefinn bb.is.

„Ég vil ekki að foreldrar unglinga sem eru ekki orðnir 18 ára geti skrifað upp á leyfi til þess að fara í ferðir sem eru ekki undir annarri yfirskrift en að fara á fyllerí.“

„Þetta kemur okkur afar spánskt fyrir sjónir,“ segir Brynjólfur Óli Árnason formaður NMÍ. „Sérstaklega vegna þess að í upphafi skólaárs þegar við settumst niður með stjórn skólans og ræddum þessa ferð, mælti hann með því að við færum frekar í Reykjanes heldur en á aðra staði. Þannig að það var ekki að heyra í honum að hann ætlaði að slá óvissuferðina af þá,“ segir Brynjólfur.

„Það er mikill pirringur í nemendum skólans vegna þessa og út af busuninni og við bíðum átekta með hvað hann bannar næst. Verður það kannski Skrallið?,“ segir Brynjólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert