60 með yfir 700 þúsund í laun

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hefur svarað fyrirspurn um launakjör.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hefur svarað fyrirspurn um launakjör. Friðrik Tryggvason

Þeim starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem eru með yfir 700 þúsund krónur í laun hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2005 með þeirri undantekningu að þeim fækkaði um þrjá árið 2006.

Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Krisjtánsdóttur borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa F-listans sem birt er í dag.

Sé miðað við alla starfsmenn voru 25 með yfir 700 þúsund kr. í laun hjá Reykjavíkurborg árið 2005, þar af voru 12  æðstu stjórnendur sem heyrðu undir kjaranefnd. Árið 2006 voru þeir 22, 15 heyrðu undir kjaranefnd.

Árið 2007 fjölgaði þeim svo um munaði og voru orðnir 42, þar af heyrðu 24 undir kjaranefnd. Í ár fá 60 starfsmenn Reykjavíkurborgar yfir 700 þúsund krónur í laun, þar af eru 27 stjórnendur sem heyra undir kjaranefnd.

Borgarritari er í yfir 700 þúsund kr. flokknum, skrifstofustjóri borgarstjóra og tveir á skrifstofu borgarstjórnar. Borgarlögmaður og borgarhagfræðingur og tveir af fjármálaskrifstofu. Mannauðsstjóri, innkaupastjóri og fimm af framkvæmdasviði. Sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs og tveir af leikskólasviði.

Menningar- og ferðamálasvið er með tvo starfsmenn sem hafa yfir 700 þúsund krónur í laun og einn slíkur er á menntasviði. Á skipulags- og byggingarsviði eru þrír í þessum flokki. Loks eru tveir á umhverfissviði og innri endurskoðandi sagðir með yfir 700 krónur í laun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka