Síðasta hálmstráið á morgun

Læknar sætta sig ekki við lægri byrjunarlaun en ljósmæður hafa …
Læknar sætta sig ekki við lægri byrjunarlaun en ljósmæður hafa nýsamið um Ásdís Ásgeirsdóttir

Samningafundi  í kjaradeilu lækna og ríkisins lauk í kvöld án árangurs en hann hafði staðið frá því klukkan 15 í dag. Að sögn Gunnars Ármannssonar, formanns samninganefndar lækna,m hafði ríkið ekkert nýtt fram að færa og því sigldu viðræðurnar í strand.

„Ef að við myndum skrifa undir það tilboð sem nú stendur á borðum myndu læknar byrja með lægri byrjunarlaun heldur en ljósmæður og það segir sig náttúrulega strax að það er eitthvað sem læknar geta alls ekki skrifað undir,“ segir Gunnar.

Læknar biðu átekta á meðan deila ljósmæðra við ríkið stóð yfir og sagði Birna Jónsdóttir formaður Læknafélags Íslands að næsta skref lækna myndi miðast við hvað fælist í miðlunartillögu ríkisins til ljósmæðra. Nú hafa samningar náðst um allt að 22,6% launahækkun ljósmæðra.

Gunnar segir þó kjaraviðræður lækna ekki hafa náð þeim punkti enn að ekki sé hægt að finna neinn sameiginlegan flöt. „Við komum fram með ákveðna hugmynd í dag sem við ætlum að skoða áfram og hittast til þess aftur á morgun. Það er jákvætt á meðan við tölum enn saman og við ætlum að leita allra mögulegra leiða sem okkur dettur til hugar, en ég held við séum nú að reyna síðustu hugmyndina.“

Hann segir hugmyndina fyrsta hafa komið fram í viðræðum í sumar en þá hafi ekki náðst samkomulag. Nú sé ætlunin að taka þráðinn upp aftur. Það ræðst því á viðræðum morgundagsins hvort læknar þurfi að grípa til aðgerða eins og ljósmæður sáu sig knúnar til að gera. „Það liggur alveg fyrir af okkur hálfu að enginn samningur verður samþykktur á þeim nótum sem læknum hefur hingað til verið boðið. Við verðum því að vona að við náum einhverri lendingu á morgun en ef ríkið ætlar ekki að hækka sig frá því sem nú er þá liggur það í augum uppi að læknar verða að beita þeim aðferðum sem þeir geta,“ segir Gunnar.

Boðað hefur verið til nýs samningafundar lækna á morgun klukkan 13.

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert