Líkja Íslandi við Argentínu og Venesúela

Dyrnar standa Íslendingum opnar í Noregi, miðað við yfirlýsingar Kristínar Halvorsen og mat norskra fjármálasérfræðinga. Jens Stoltenberg forsætisráðherra hafði samband við Geir Haarde að fyrra bragði, en engar opinberar ákvarðanir voru teknar þar, en aðeins hnykkt á norsku láni sem Íslendingum hefur staðið til boða frá í sumar. Fylgst er náið með íslensku fjármálakreppunni í Noregi, enda snertir hún Norðmenn sjálfa beint, m.a. vegna umsvifa Glitnis í Noregi. Sérfræðingar telja útilokað að íslenska ríkið geti bjargað sér án traustrar erlendrar aðstoðar.

Minnir á Suður-Ameríku

„Sem Norðmaður verð ég að segja að þröng staða Íslands er sláandi,“ segir Pål Grytte, prófessor í hagfræðisögu við Norges Handelshögskolen í Ósló, og líkir stöðu Íslands nú við stöðu Suður-Ameríkuríkja eins og Venesúela og Argentínu þegar allt fór á hvolf þar. „Þar lenti ríkið sjálft í snörunni, en ekki bara fjármagnseigendur. Ísland verður að fá aðstoð. Ríkissjóður hrekkur ekki til. Ísland er of lítið til að vera stórveldi í fjármálaheiminum. Seðlabankinn er of lítill, menn hafa reist sér hurðarás um öxl.“ Ola Grytten segir það ráðgátu hvernig það geti hafa atvikast að bankar uxu ríkisfjármálunum langt upp fyrir höfuð. „Við spyrjum okkur að því hvernig íslensk stjórnvöld gátu horft á þetta gerast, eftir að hafa margoft glímt við vandamál vegna verðbólgu og fallandi krónu.“

Íslenska bólan hefur lengi verið rædd í Skandinavíu. Svarið var að gagnrýnin einkenndist af öfund og Ola Grytten segist alls ekki þvertaka fyrir það að stundum hafi örlað á öfund í bland við forundran vegna umsvifa Íslendinganna. En reynsla Norðmanna sýnir að þegar bankar ætla að hasla sér völl hjá öðrum þjóðum, þá leiði það yfirleitt til þess að útbreiðslan felist í því að erlendu bankarnir fái lélegustu kúnnana og verstu kjörin.

Snjallt pólitískt útspil

Grytten segir fréttir af því að Íslandi bjóðist nú rússneskt lán umhugsunarefni. „Þetta lítur út fyrir að vera snjallt pólitískt útspil. Óhjákvæmilega hljóta USA, ESB og Noregur líka að velta því fyrir sér hvort þetta sé pólitískt æskilegt. Og hvort ekki standi öðrum nær að bjóða Íslandi aðstoð.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert