Bændur hafa áhyggjur af stöðu sinni

Formaður og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna áttu fund með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilgangur fundarins var að fara yfir stöðu landbúnaðar og matvælaöryggismál við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum landsins.
 
Haft er eftir Eiríki Blöndal, framkvæmdastjóra BÍ, á vef Bændasamtakanna, að m.a. hafi verið rætt um mikilvægi landbúnaðar í tengslum við matvælaöryggi og að tryggja eins og kostur er að rekstrareiningar haldi áfram framleiðslu. Þá var ítrekað mikilvægi þess við ráðherra að skuldastaða og lausafjárskortur rekstraraðila valdi ekki hruni í framleiðslu og að tryggja þyrfti aðföng eins og kjarnfóður, olíu, áburð, plast og rekstrarvörur úrvinnslufyrirtækja. 

„Farið var yfir þá stöðu að búin eru jafnframt heimili bænda og að efnahagur fjölskyldna og búa er blandaður. Stórfelld hækkun aðfanga umfram verðlagsbreytingar var tíunduð á fundinum. Ráðherra og fulltrúar BÍ eru samstíga um mat á ástandinu og ákveðið var að óska eftir viðræðum við nýstofnaða banka sem fyrst,“ segir Eiríkur við vefinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert