Flest erlend skólagjöld þegar greidd

Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, segir alveg ljóst að töluvert sé um það að námsmenn erlendis séu að lenda í vandræðum við millifærslu fjármuna frá Íslandi. Hann segir aðallega vera um að ræða millifærslu framfærslufjár sem námsmenn hafi samið um við bankastofnanir. Ekki reyni á millifærslu lána til skólagjalda nú nema í einstökum tilfellum.

Steingrímur sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að í flestum þeim tilfellum, sem hann hafi heyrt um, sé um námsmenn á meginlandi Evrópu að ræða.

Þá sagði hann flesta þá sem rétt eigi á lánum til greiðslu skólagjalda á haustönn hafa verið búna að greiða gjöldin áður en hinar miklu breytingar urðu í íslensku efnahagslífi. Nokkur tilfelli hafi þó komið inn á borð sjóðsins þar sem nemar eigi yfir höfði sér greiðslu skólagjalda. Ekki standi á sjóðnum að greiða út slík lán og það sé í raun Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að finna lausn á þeim vandamálum sem upp komi varðandi millifærslur. Þá sagði hann útborganir vera í samræmi við gengi útborgunardags og að lán vegna skólagjalda miðist nú sem áður við mynt námslandsins.

Steingrímur sagði námsmenn greinilega misháða því að fá peninga millifærða frá Íslandi en að sjaldnast sé um útborganir frá sjóðnum að ræða. Ekki muni reyna á slíkt fyrir alvöru fyrr en í janúar er framfærslulán verði greidd fyrir haustönn og lán vegna skólagjalda á vorönn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert