Sveitarfélög leita fjármögnunarleiða

„Á meðan það er ekki tryggð fjármögnun til einhvers tíma fyrir sveitarfélögin þá er staða þeirra í mikilli óvissu,“ segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hann segir forgangsverkefni sveitarfélaganna varðgæslu um velferðarþjónustu og aðra þjónustu.

Mikil óvisssa

„Þetta eru bara algjörar hamfarir í efnahagsmálum. Það snertir auðvitað allt og alla, og sveitarfélögin fara ekki varhluta af því,“ segir Lúðvík. „Almenni reksturinn hefur verið í þokkalegu standi, en við horfum auðvitað í mikla óvissu þar,“ segir Lúðvík og bendir á að gríðarlega mikil innskil á lóðum hafi valdið vanda á greiðsluflæði hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, tekur undir með Lúðvík. „Við vorum með alla fjármögnun klára en svo hafa orðið mikil innskil á lóðum og við verðum einhvern veginn að bregðast við því,“ segir hann en tekur fram að ekki sé um neitt neyðarástand að ræða.

Stefnt á skuldabréfaútboð

Lúðvík segir að fyrir liggi tillögur um sameiginlegt skuldabréfaútboð í gegnum lánasjóði sveitarfélaga. „Stjórnvöld og Seðlabanki verða auðvitað að tryggja það að sveitarfélögin séu í ákveðnum forgangi í þeirri fjárstýringu sem menn hafa tök á,“ segir hann.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að erlend fjármögnun sé ekki möguleg. „Sveitarfélög hafa mest verið að taka erlend lán og við þurfum að tryggja það að sveitarfélögin geti haldið uppi sinni starfsemi,“ segir hann.

Fundað með ráðherra

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga funduðu síðdegis í gær með Kristjáni Möller samgönguráðherra sem fer með málefni sveitarfélaganna til þess að fara yfir þá stöðu sem sveitarfélögin eru í.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert