Barði og sparkaði í konuna

Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms frá því í febrúar á þessu …
Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms frá því í febrúar á þessu ári. Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni á heimili þeirra beggja 14. desember í fyrra. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún látin niður falla eftir tvö ár haldi maðurinn almennt skilorð lögum samkvæmt.

Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms Reykjaness frá því 29. febrúar á þessu ári.

Karlmaðurinn var fundinn sekur um að hafa slegið konuna ítrekað „hnefahöggum í höfuð og andlit og þá sparkað í líkama hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut opið sár og mar á augnlok og augnsvæði hægra megin, marga yfirborðsáverka á höfði, mar yfir hryggjaliði, mar á aftanverðum hægri upphandlegg, yfirborðsáverka á öxl og mar á vinstra læri,“ eins og orðrétt segir í dómi héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti.

Karlmaðurinn neitaði sök í málinu og krafðist þess að vera sýknaður. Eins og áður sagði þótti sannað að hann hefði ráðist á fyrrverandi konu sína og veitt henni fyrrnefnda áverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert